Mánaskál

Færslur: 2013 Maí

15.05.2013 22:45

Ótitlað

Það kom loksins að því að okkar fyrsti sauðburður færi af stað. Ég átti von á fyrstu lömbum síðastliðna helgi og á mánudag 13. maí gerðist það loksins. 

Fyrst til að bera var kollótt gimbur undan Lagði og kind sem var þrílembingur. Hún hélt í sæðingu við Streng. Burðurinn var erfiður sökum stærðar lambsins og ég var ekki í fjárhúsinu sjálf þegar hún bar. Sindri á Neðri Mýrum dró úr henni lambið og blés í það líf. Lambadrottningin mín braggaðist vel og dafnar núna í fjárhúsinu.


Fyrsta lambið okkar - gimbur undan Algebru (12-008) og Streng frá Árbæ


Þórdís með fyrstu gimburina dagsgamla


14. maí bar svo Aþena hennar Þórdísar hvítum hrút undan Prúð frá Ytri Skógum. Hún var ekki alveg að átta sig á þessu lambi fyrst um sinn og kærði sig ekki um það en þegar leið á daginn var hún búin að sættast við það.


Hrútur undan Aþenu (12-004) og Prúð frá Ytri Skógum

Í nótt fékk Afríka lambsóttina en því miður var lambið bæði gríðarstórt og snéri eitthvað vitlaust svo það lifði ekki fæðinguna af. Sindri og Birna voru á vaktinni og þrátt fyrir tilraunir þeirra til að koma lambinu í heiminn á lífi gekk það ekki upp. Svona er nú bara víst að vera bóndi, maður missir stundum skepnur. Afríka var fengin við Streng eins og Algebra.

Í morgun bar svo Aska (12-016) tveimur hvítum lömbum, hrút og gimbur. Tekin var ákvörðun að gera tilraun til að venja annað lambið hennar undir Afríku. Þar sem búið var að telja fósturvísa var nokkuð öruggt að Aska væri með tvö lömb svo hægt var að skipuleggja þetta fyrirfram. Hún fékk að halda fyrra lambinu sínu en það seinna var sett ókarað, beint til Afríku og meira að segja baðað upp úr salti (sumir segja að það sé alveg málið). Þetta fór nú þannig að Afríka tók að sér hrútinn svo þær eru nú sáttar með sitt hvort lambið. Þetta gerðu Sindri og Birna fyrir okkur þar sem ég var í vinnunni minni og Atli að heiman í vinnu. Ég get allavega verið sátt við að þetta endaði vel miðað við aðstæður emoticon
Nú eru allar gimbrarnar bornar sem voru fengnar við sæðishrútum svo ég hef engar tímasetningar á hinar gimbrarnar. Væntanlega fara þær að bera koll af kolli og ég krossa putta og vona að sauðburðurinn gangi vel.

Hvernig er það svo er maður nokkuð fjárbóndi nema að eiga fjárhund? .. og þarf maður ekki klárlega að eiga fleiri en einn? Týri minn er nú víst fjárhundur og allt það en ég er búin að vera að bíða eftir rétta Australian shepherd hvolpinum í þónokkurn tíma. Á sumardaginn fyrsta fæddust svo loksins hvolpar hjá Heimsendaræktun og þar af þrjár tíkur, tvær blue merle og ein svört þrílit. Ég er búin að fara að skoða hvolpana og auðvitað er maður alveg ástfanginn. Nú er bara að sjá hvaða tík er mín tík emoticon 


Foreldrarnir eru margverðlaunaðir og ótrúlega flottir fulltrúar sinnar tegundar


Er eitthvað dásamlegra en hvolpahrúga!


05.05.2013 23:31

Ekkert bólar á vorinu

Það er nú kominn vorhugur í mann þó veðrið minni ekkert á vor. Grillið er komið út og garðhúsgögnin líka.. en það hættir bara ekki að snjóa!



Sauðburður er hafinn á Neðri Mýrum svo við bíðum spennt eftir okkar fyrstu lömbum. Ég á þó ekki von á lömbum úr okkar ám fyrr en um næstu helgi eða svo. Samkvæmt fósturvísatalningu héldu 4 gimbrar í sæðingum og eina af þeim ætti að vera tvílembd. Af þessum 4 eru allar lituðu gimbrarnar okkar, tvær svartar og ein grá svo vonandi fáum við eitthvað skemmtilegt til að setja á undan þeim. 

Ég hef verið léleg með myndavélina í fjárhúsunum svo ég skelli hér inn myndum frá því í apríl sem aldrei rötuðu inn á síðuna.




Aþena hennar Þórdísar hér fyrir miðju


Púkadóttir



Þessi kolla er svo ein ef þeim sem eiga að bera fyrst hjá okkur, hún er fengin við kollóttan sæðishrút.

Ég á von á að fyrstu ærnar okkar beri um næstu helgi svo hér er bara tilhlökkun emoticon

Við mæðgur erum búnar að vera á reiðnámskeiðum í vetur, ég á knapamerki 1 og Þórdís á reiðnámskeiði með yngstu krökkunum. Ég tók verklega prófið í knapamerkinu í síðustu viku á Drunga mínum og það gekk bara vel, erfiðast var þó að fara á bak, hann er nú bæði stór en svo er ég bara orðin ansi stirð og þung á mér enda gengin 26 vikur þegar ég tók prófið. Þórdís Katla tók svo þátt í afmælissýningu hestamannafélagsins Neista á sunnudaginn á Drunga.




Hamingjusöm hestastelpa


Litli strumpurinn búinn að snúa sér við og situr öfugt á hestinum

Þessi sýning er vonandi bara forsmekkurinn af því sem koma skal því á meðan hún sýnir áhuga á hestamennskunni verður allt fyrir hana gert svo mamman fái hana með í sportið emoticon

Það er aldrei lognmolla á heimilinu heldur. Foreldrar Atla komu til okkar um helgina og reyndar var tengdapabbi mættur fyrr og hér var tekið til hendinni í eldhúsinu. Ég ætla að sýna fyrir og eftir myndir af eldhúsinu þegar það er tilbúið en það er nú þegar orðin þvílík breyting þó svo að fyrsti hluti nýja eldhúsins sé ekki fullkláraður. Þeir feðgar drifu sig líka af stað í að klára baðherbergið og þar er nú komin upp innrétting emoticon Myndir koma inn fljótlega.

Ég verð svo vonandi dugleg að skrifa fréttir á næstunni enda er vorið spennandi tími í sveitinni. Myndavélin fór með í fjárhúsið áðan.. en svo var engin mynd tekin og vélin gleymdist þar. Nú jæja hún er þá allavega til staðar fyrir næstu ferð í fjárhúsið!

Fleiri myndir af þessu öllu í myndaalbumi.


  • 1
Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 303
Gestir í gær: 66
Samtals flettingar: 300768
Samtals gestir: 37197
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:26:41

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar