Mánaskál |
|
Færslur: 2012 Júní24.06.2012 20:30Hryssur til stóðhesta og fleiraÁ miðvikudag var kominn tími til að keyra fyrstu hryssunar undir hest en þær Gleði frá Þóroddsstöðum og Vaka mín fóru á stefnumót við Dagfara frá Sauðárkróki sem er leirljós, blesóttur, sokkóttur undan Hvítasunnu frá Sauðárkróki og Hróð frá Refsstöðum. Hann er því eðalættaður og vonandi sannar hann sig svo í dómi. Ég vonast auðvitað til að fá leirljósa blesótta hryssu en ég er búin að læra að vera bara allavega glöð ef ég fæ folald yfir höfuð og ef það svo lifir svo litur og kyn skiptir ekki öllu. Gleði er fallega skjótt og faxprúð Hilmisdóttir Ég held svo Vöku minni þetta árið en hún á svo að vera reiðhesturinn minn áfram. Hún hefur ekki átt folald og er orðin 12 vetra svo ég ætla að koma folaldi í hana núna og geyma hana þar til síðar í folaldseign. Ég skelli hér inn mynd af henni síðan hún var spengileg en hún hljóp í spik hjá mér þarsíðasta vetur þar sem hún átti að vera fylfull og var úti heilan vetur með folaldshryssunum. Hún er ekki svona spengilega enn í dag en hún verður svo tekin undir hnakkinn aftur þessi elska þegar hún kemur frá Dagfara svo hún er ekki komin í frí alveg strax. Vaka er rauð tvístjörnótt Svartsdóttir Við Atli höldum þremur hryssum í ár og það er dálítið skemmtileg staðreynd að þær eru dálítið skyldar í gegn um feður sína. Hugsýn er undan Kjarval frá Sauðárkróki, Vaka er undan Svarti frá Unalæk sem er hæst dæmda afkvæmi Kjarvals og Assa frá Þóroddsstöðum er svo undan Núma frá Þóroddsstöðum sem er hæst dæmda afkvæmi Svarts frá Unalæk, það er bara spurning hvort mig vanti semsagt ekki eins og eina Illingsdóttur til að halda áfram með vitleysuna hehe. Í lok þessarar viku fer Hugsýn svo aftur undir Abraham frá Lundum II og Assa fer til Kvists frá Skagaströnd. Atli er að halda þeim báðum og er því orðinn stórtækur í hrossaræktinni. Það var umsamið að hann ætti folaldið hennar Hugsýnar í ár sem varð hans fyrsti hestur en við misstum hann svo tveggja daga gamlann. Atli fær því að halda Hugsýn aftur undir Abraham en þar að auki var hann mjög spenntur fyrir Alexander frá Lundum sem við áttum pantað undir en hann er bróðir A-bræðranna frá Lundum eins og Abraham. Alexander er undan Kvist og fallega brúnblesóttur en við misstum svo af tækifærinu til að halda undir hann þar sem hann stoppaði stutt í Eyjafirðinum. Atli greip þá til sinna ráða og pantaði undir Kvist sjálfann og fer hún Assa undir hann. Assa er undan Núma frá Þóroddssstöðum og mamma hennar er sýnd með 7.90 og er undan heiðursverðlaunahryssunni Sjöfn frá Laugarvatni. Assa er töluvert skyldleikaræktuð þar sem mamma hennar, Sjöfn frá Laugarvatni, er einnig mamma Glímu frá Laugarvatni sem Númi er undan. Glíma hefur einnig heiðursverðlaun og eru því báðar ömmur Össu því heiðursverðlaunahryssur Ég er núna bara með tvö hross á járnum þar sem Vaka er komin í leyfi. Drungi undan Klett frá Hvammi er búinn að vera á járnum síðan í apríl en Rák var járnuð í síðustu viku. Ég skellti mér svo með þau tvö á kerru yfir á Neðr-Mýrar og skellti mér í reiðtúr með Sindra og Birnu. Þetta var skeifnaspretturinn á Rák sem nú er orðin 21. vetra og hefur ekki verið brúkuð síðan í stóðréttunum í fyrra og viti menn, gamla hefur þetta ennþá! Svo rúm og fín og viljinn endalaus Hún verður sparimerin mín í sumar. Tryppin voru sett á "dalinn" í vor ásamt Flugu sem er orðin 23. vetra og verður ekki járnuð í sumar. Fluga og Rák eru svo miklar vinkonur að Fluga fer aldrei langt frá og þar af leiðandi eru hún og tryppin heimakær. Þau rölta hér um svæðið en skila sér svo alltaf heim aftur sem mér finnst bara ansi notalegt. Orða mín frá Stórhóli hefur þroskast vel og er mjög falleg að mínu mati. Hún er líka ljúf og hlý í umgengni svo er liturinn hennar bara alveg æði finnst mér. Ég elska upplitið á henni með sín bláu augu. Skrifað af Kolla 17.06.2012 22:08Hugsýn og "Fóstri"Við fengum Jóa og strákana hans í heimsókn um helgina sem vakti mikla lukku hjá heimasætunni. Henni leiðist aldrei að fá litla gesti. Jói átti erindi yfir í Skagafjörð og var því ákveðið að sækja Hugsýn í leiðinni því hún á að fara undir hest fljótlega. Við komum því við á Narfastöðum og hittum Hugsýn með litla rauðstjörnótta fóstursoninn. Á hestakerrunni er rúmt um hrossin svo það var alveg pláss til að fá sér sopa á leiðinni. Ferðin gekk vel og nú eru Hugsýn og "Fóstri" liti saman í hólfi neðan við bæinn þar sem ég get dáðst að þeim út um gluggann Krakkarnir fengu vatn í sundlaugina og skemmtu sér vel. Við kláruðum svo girðinguna loksins í dag en hún hefur tekið ógurlegann tíma. Núna er semsagt komin fín girðing í kring um nýja túnið okkar og nýræktina. Atli á sko hrós skilið fyrir þessa endalausu girðingu! Núna er bara að vona að það fari að rigna almennilega svo grasið fari að spretta. Reyndar fengum við góða dembu í gær sem vætti aðeins í en mikið þarf í viðbót ef vel á að vera. Nýja túnið og nýræktin Staurarnir loksins komir allan hringinn Bylting er köstuð í Þýskalandi og átti þennan fína jarpskjótta hest undan Álfgrími frá Gullberustöðum Skrifað af Kolla 16.06.2012 12:14Útskrift og fleiraÞað gengur illa í hrossaræktinni á Mánaskál um þessar mundir en við misstum eina folaldið sem fæddist okkur í ár. Hugsýn kastaði myndarlegum brúnstjörnóttum hesti undan Abraham frá Lundum II sem er undan gæðingamóðurinni Auðnu frá Höfða og Vilmundi frá Feti. Abraham er bróðir Auðs, Arðs, Als og Asa frá Lundum sem allir hafa staðið sig vel á kynbótabrautinni og/eða í keppni. Atli dreymdi um að fá brúnt tvístjörnótt undan Hugsýn og Abraham og fékk brúnstjörnótt sem var bara nokkuð nálægt væntingum. Litli folinn var ekki kominn með nafn þegar hann drapst 6. júní aðeins tveggja daga gamall. Atli varð var við það að Hugsýn var orðin folaldslaus og strax var farið að leita að folaldinu, það var ekki í girðingunni og því var leitað á dalnum þar sem hugsanlega hefði hann getað farið út úr girðingunni og slæðst í burtu með nærliggjandi stóði. Svo urðu hann og Sindri, sem aðstoðaði við leitina, varir við að Hugsýn var að slást við hryssurnar í hólfinu. Fundu þeir þá litla folann og hafði hryssan verið að verja hann. Hann hafði horfið ofan í jörðina í gegn um smá holu og þar undir var mikið holrúm blaut leðja. Hann átti því aldrei séns litli folinn fyrst hann féll þarna ofan í. Við vorum auðvitað miður okkar yfir þessu enda áttum við ekki von á að þessi hætta leyndist í hólfinu. Hugsanlega er um að ræða vatnsuppsprettu sem okkur var ekki kunnugt um. Það var algjör martröð að lenda í þessu og það var mikil sog á heimilinu. Við misstum hryssu frá folaldi í fyrra og maður taldi að við værum búin með þennan kvóta í bili. Ég auglýsti strax á netinu að ég væri með mjólkandi hryssu ef folaldi vantaði fósturmóður. Ég náði sjálf að venja Bratt undir Grímu frá Lundum í fyrra og ég gat ekki annað en boðist til að aðstoða aðra fyrst ég var búin að upplifa það að fá svona góða aðstoð í fyrra. Daginn eftir fór Hugsýn í lán á Narfastaði í Skagafirði en þar var folald sem var móðurlaust og tilraunir til að venja það undir hryssu voru ekki að bera árangur. Svo fór að Hugsýn gekkst við folaldinu og er nú að mjólka ofan í lítinn fola. Í dag verður hún svo sótt ásamt folaldinu og þau fara svo saman til móts við stóðhest fljótlega. Á föstudag í síðustu viku fann Atli lambræfil sem hann kom með heim. Lambið var undanvillingur, vanært og með skitu. Svo fór að við fóstruðum litlu gimbrina sem náði sér svo aldrei almennilega á strik þrátt fyrir góða tilraun. Hún drapst svo eftir helgina og þá var maður orðinn feginn að hún fékk að fara því það var orðið ljóst að þetta var töpuð barátta, hún bara veslaðist upp. Þórdís Katla og Alexíus aðstoða við að gefa lambinu Síðustu helgi útskrifaðist ég svo sem viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Akureyri Þetta var oft á tíðum erfitt en nú er ég búin að uppskera gráðuna og fjölskyldan mín á þakkir skilið fyrir þolinmæði og aðstoð í gegn um námið. Mamma og pabbi komu norður til að vera viðstödd útskriftina og svo fékk ég góða gesti líka en frænkurnar mínar fjölmenntu með mökum og áttum við góða helgi saman. Það voru ekki allir að þekkja Atla svona skeggjaðann en jú ég er enn með sama karlinn, er ekkert búin að endurnýja Alexíus frændi kom með í sveitina yfir þessa helgi og það var rosalega gaman hjá honum og Þórdísi. Þau fengu meðal annars að kúra saman í veiðihúsinu sem var mikið sport. Alexíus og Þórdís Katla Amma Sveinbjörg og afi Gunni keyptu sundlaug handa skvísunni og sem betur fer átti Atli einhverja loftdælu til að blása í gripinn því við hefðum aldrei getað það með lungunum. Þórdís og Alexíus fengu að prufa sundlaugina sem var mjög gaman Á mánudagsmorgun fengum við góðan gest en hún Lína litla frá Sturluhóli kom í heimsókn eina nótt. Hún og Þórdís voru miklar vinkonur og var Þórdís ansi hrifin af þessum litla gormi. Hún er bara hvolpur og gauragangurinn eftir því Hún fékk samt að fara með Atla í girðingavinnu og er orðin útskrifuð sem sveitahundur. Ég varð vitni að því þegar Týri stal af henni nagbeini en þá greip hún til sinna ráða og kom inn með alvörubein sem Týri hafði væntanlega sett á góðan stað til að geyma til mögru áranna Skrifað af Kolla 04.06.2012 23:41Ár á MánaskálÞað er kominn júní en síðastliðna helgi var orðið ár síðan fjölskyldan flutti hingað norður. Mér finnst bæði eins og við séum nýkomin og að við höfum alltaf verið hérna. Atli varð svo líka þrítugur á sunnudag og fékk gjafir og tertu í tilefni dagsins. Nágranni okkar hann Sindri á Neðri Mýrum varð einnig þrítugur síðasta fimmtudag og að tilefni þessa var haldið smá teiti á Neðri Mýrum á föstudag. Mikið af góðu fólki leit við og fengu strákarnir ýmsar skemmtilegar gjafir t.d. rabbabara og bruggkút svo væntanlega verður reynt við rabbabaravíngerð í sumar. Mál málanna var væntanlega samt að þeir fengu folatolla að gjöf og töldu þá allir að ég þyrfti að nú aldeilis að reyna að vinna mér inn prik hjá Atla mínum til að komast yfir tollinn. Fyrir mér lítur dæmið þó ekki þannig út þar sem hann þarf væntanlega að vera góður við mig til að fá lánaða hjá mér hryssu! Reyndar kom svo upp úr hattinum að annar hver maður í teitinu var tilbúinn að lána Atla hryssu í folaldseign svo greyjið maðurinn þyrfti ekki að vinna sér inn prik hjá frúnni til að fá lánaða hryssu. Við sjáum til hvernig þetta endar allt saman en það er ljóst að Atli er á leið í hrossarækt. Sveinbjörg og Gunnar komu til okkar um helgina og auðvitað sátu þau ekki auðum höndum frekar en fyrri daginn. Hér var borið á tréverk, settar niður kartöflur og vatnsbólið var hreinsað. Sólin lék við okkur alla helgina. Ég var að vona að Atli fengi folald frá Hugsýn í afmælisgjöf þar sem hann átti að fá að eiga folaldið hennar. Um kvöldmatarleyti á sunnudag kíkti ég á hryssuna og sá að það var komin mjólk í hana svo þetta var að skella á. Ég vakti aðeins eftir henni en ákað svo að fara bara að sofa, þetta kæmi hvort sem ég væri að horfa á eða ekki. Atli vakti mig svo um klukkan þrjú með þær fregnir að það væri komið brúnt folald. Ég stökk auðvitað upp úr rúminu og út til að kíkja á gripinn og þetta var þessi líka sæti og blauti brúnstjörnótti hestur. Núna þarf Atli að finna nafn á folann sinn þar sem ég var bara klár með hryssunafn. Í dag komu hinga blaðamaður og ljósmyndari frá Fréttablaðinu
en það verður víst ekki þreytt saga að við skulum hafa flutt af mölinni og
hingað í buskann. Þetta fólk var auðvitað velkomið í heimsókn þó svo okkur
finnist við ekki hafa neitt að segja. Þeim langaði svo að mynda einhver hross
og leist rosalega vel á að mynda nýja folaldið okkar svo við æddum út í stykki
og vorum þar mynduð í bak og fyrir með Hugsýn og litla folaldið. Hugsýn er
mikil mamma og passer vel upp á ungann sinn. Við komum þarna askvaðandi með
ljósmyndara og Týra og það var allt í lagi, en þegar hinar hryssurnar komu
nálægt þá tropaðist gamla mín. Hún vill sko ekki fá þær nálægt sínu afkvæmi. Næstu helgi er kvennareið Neista sem ég missi því miður af þar sem hún er sama dag og útskriftin mín. Ég er voðalega svekkt því ég var sko búin að ákveða að mæta í þessa ferð. Ég er að fá til mín gesti í tilefni útskriftarinnar svo hérna verður vantanlega fjör næstu helgi. Skrifað af Kolla
Flettingar í dag: 89 Gestir í dag: 26 Flettingar í gær: 303 Gestir í gær: 66 Samtals flettingar: 300768 Samtals gestir: 37197 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:26:41 |
Eldra efni
Tenglar
|
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is