Mánaskál

Færslur: 2011 Október

06.10.2011 22:13

Haustið er komið

Ég held að haustið sé bara mætt til mín í Laxárdalinn. Allavega eru fjöllin grá dag eftir dag, rigningar og rok.. já ég held að ég geti sagt að haustið sé komið. Atli hefur verið að heiman, og það er ekki að spyrja að því.. alltaf er hann þar sem veðrið er töluvert betra. Við Þórdís erfum það nú ekki við hann lengi þar sem það verður nú gott að fá kallinn heim.

Þórdís Katla er búin að vera lasin en þetta byrjaði í síðustu viku þegar hún fékk einhverja flensu, hún varð eiginlega aldrei alveg góð og var svo komin með eyrnabólgu um helgina. Hún er þó orðin spræk núna og er farin að fara aftur í leikskólann. Í dag var leikskólinn reyndar lokaður eftir hádegi og þá voru góð ráð dýr! Ég er búin að vera með móral yfir því að þurfa að vera fjarverandi frá vinnunni á meðan Þórdís Katla var lasin þar sem þetta þurfti akkúrat að hitta á sama tíma og Atli var að heiman. Svo þegar leikskólinn var með lokað í dag var ég orðin í klípu. Eftir nokkur símtöl og tilraunir til að redda deginum þá bjargaðist þetta í dag. Ein sem vinnur með mér er nefnilega amma bestu vinkonu hennar Þórdísar í leikskólanum og því var bara reddað að Þórdís Katla fékk að fara heim með Birgittu vinkonu sinni og leika við hana emoticon Þegar ég sótti Þórdísi eftir vinnu þá vildi hún auðvitað ekkert smá mömmu sína og vildi bara vera áfram hjá Birgittu. Eftir miklar fortölur var ljóst að þessi slagur yrði ekki unninn og var barnið því borið út argandi hehe. Það var greinilega rosalega gaman að hjá Birgittu emoticon   Þessar stelpurófur fá nú alveg örugglega að leika sér eitthvað meira saman síðar.

Við Þórdís Katla erum á leið suður á morgun til að sækja Atla. Við munum nú nýta ferðina í eitthvað skemmtilegt og gagnlegt og förum þar á meðal í smá hestaleiðangur í Grímsnesið. Týri kemur að sjálfsögðu með og fær eflaust að hitta einhverja fjölskyldumeðlimi. Týri hittir reyndar ekki Sömbu fjárhund í þessari ferð því mamma og pabbi verða ekki heima.. en í staðinn þá getur hann legið í bælinu hennar, étið nagbeinin og leikið með dótið hennar.. allt án þess að hún geti neitt við því gert! Greyjið Samban mín.

Af hestamálum er það helst að frétta að við erum búin að selja Byltingu. Hún er á leið til Þýskalands þessi dama og ætlar að eiga folaldið sitt á þýskri grund í vor. Ég sem var akkúrat farin að monta mig yfir "stóðinu" mínu sem var farið að stækka. En ég efast ekki um að ég verði fljót að fylla í skarðið og fá mér eitthvað annað í staðinn! Nú styttist líka í að Eðall litli fari til síns heima, rosalega líður tíminn hratt. Hann er ferlega sætur og forvitinn þessi kappi og ég efast ekki um að eigandinn verði ánægð með hann. Ég fór út í dag og tók myndir af Byltingu og hinum hrossunum en ég get ekki sett neinar myndir inn fyrr en Atli er kominn til baka með fartölvuna okkar.

Ég fór líka í smá leiðangur í dag á Neðri Mýrar en ég myndaði folöldin hans Einars. Hann fékk í ár nokkur fallega skjótt folöld undan Álfasteinssyninum Gimsteini frá Garðsá. Ég mun hjálpa honum að auglýsa þau á næstu dögum. Myndir koma eftir helgina!

Hestamannafélagið á Blönduósi er að auglýsa knapamerkin sem ég er búin að bíða eftir í 3 ár að geta tekið! Ég er búin að skrá mig til leiks og viti menn.. ég skráði Atla líka! emoticon  Núna fær strákurinn bara eitthvað gott undir hnakkinn og er sendur á reiðnámskeið takk fyrir. Mér finnst eiginlega verst að hvert námskeið sé kennt allan veturinn. Ég hefði nefnilega viljað ná tveimur námskeiðum á einum vetri. Fyrir mig hefði verið betra að taka þetta hraðar og koma tveimur námskeiðum að. Ég er auðvitað búin að vera að bíða í 3 ár eftir að geta komist af stað aftur og núna á sko að gera allan heiminn! hehe

Síðustu helgi skellti ég mér í næstu sýslu í stóðréttir og á ball. Ég var að fara í fyrsta skipti í réttirnar í Víðidalnum og það var bara ansi gaman. Ég sá mikið af myndarlegum hrossum en ég heillaðist þó mest að tveimur folöldum frá Stórhóli en það var fyrst og fremst liturinn sem greip mig. Annað var rautt með hring í báðum augum, leit hálf geðveikislega út! og hitt brúnt með stórt vagl í báðum augum og smá leist. Mér finnst þessi augu alveg meiriháttar emoticon
Ása María mætti á sitt annað stóðréttarball þetta árið og geri aðrir "ekki-hestamenn" betur! Við Elsa og Ása kíktum í smá party á þarnæsta bæ eða eitthvað þannig og þaðan var svo farið á ball í Víðihlíð. Geirmundur lék fyrir dansi og ég verð nú alveg að segja að hann hefur nú einhvern tímann mátt sjá fífil sinn fegurri. Ég held að ég mæli nú með því að forsvarsmenn réttarballsins skoði það að yngja upp skemmtikraftana. Hann var auðvitað alveg ágætur og jafnvel góður inn á milli en heilt ball af þessu var eiginlega aðeins og fannst mér. Svo er ekki að spyrja að því að á sunnudegi var ég bara hress og spræk og fór snemma heim að taka við barninu mínu sem fékk ömmu Sveinbjörgu og afa Gunna í heimsókn til að leika við sig heila helgi! Ekkert smá heppin.

Þetta blogg er alveg myndalaust en ég bæti úr því fljótlega eftir helgina en þá get ég farið að tæma myndavélina mína. Nýtt blogg kemur von bráðar emoticon

  • 1
Flettingar í dag: 39
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 303
Gestir í gær: 66
Samtals flettingar: 300718
Samtals gestir: 37182
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:05:40

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar