Mánaskál

Færslur: 2010 September

22.09.2010 17:06

Réttir og fleira

Nú er orðið of langt síðan síðustu fréttir birtust á síðunni. Ég ætla hér með að bæta úr því.

September hefur flogið áfram og er allt í einu að verða búinn! September er alltaf frekar þéttur hjá mér, mikið að gera og skólinn situr á hakanum. Þessi september var ekkert frábrugðinn, afmæli og veisla fyrstu helgina og svo réttir næstu tvær og þá er maður farinn að sjá fyrir endann á mánuðinum. Ef ég væri ekki að reyna að mennta mig þá myndi ég sko halda áfram og skella mér í fleiri stóðréttir emoticon

Lífið hefur annars gengið sinn vanagang síðan sumarfríið kláraðist. Skólinn er kominn á fullt og mikið meira en nóg að gera! Þórdís Katla heldur áfram að stækka og stækka enda styttist ótrúlega í 2 ára afmælið ótrúlegt en satt!


teiknar mynd


les með pabba


mátar koppinn


og borðar kvöldmatinn með báðum dúkkunum!

Amma og afi í "Torfó" sem nú búa í Furugerði áttu 30 ára brúðkaupsafmæli þann 6. september. Í því tilefni hittist fjölskyldan heima hjá bróður mömmu og sló upp veislu fyrir þau gömlu. Afi og amma vissu ekki betur en að þau væru á leiðinni í mat til Jóns og Siggu svo að þetta kom þeim skemmtilega á óvart emoticon


Þórdís kissir Alexíus frænda í veislunni

Aðra helgina í september voru göngur og réttir fyrir norðan. Við fórum því í sveitina og Jói frændi hans Alta og fjölskyldan hans komu með. Þetta var mjög skemmtileg helgi og mikið um börn í ferðinni því Jói og Ásdís eiga 4 börn, og auk þess fengu Stefanía og Björn Elvar far á Syðri-Hól til pabba síns og Signýjar.


Jói kom með allskonar dót.. þar á meðal reiðhjól sem Þórdísi fannst skemmtilegt.


Axel Hrafn og Þórdís Katla á stóra fjórhjólinu


Guðrún Árný á litla hjólinu


Þrjár frænkur, Ása Lind, Guðrún Árný og Þórdís Katla




Þórdís stóra frænka leiðir Arnar Þór






krakkarnir fylgjast með fénu í réttunum





Það er alltaf rosa gaman þegar Jói og co koma í sveitina svo ég vona bara að þau komi sem oftast. Krakkarnir skemmta sér vel saman og leiktækin sem Jói kemur alltaf með slá algjörlega í gegn. Ég er viss um að hann verður uppáhalds frændi í framtíðinni ef fer sem horfir emoticon 

Síðasta vika fór ekki í neitt nema að láta sig dreyma um stóðréttirnar. Ég fékk loksins góðar fréttir á miðvikudagskvöld, búið að redda hestum! Spenningurinn fyrir helgina var mikill og hún stóð sko algjörlega undir væntingum. Bryce vinur hans Atla sem vann með honum hjá ITS fyrir nokkru síðan er á Íslandi og því var hann drifinn með í stóðréttir þó að honum finnist hross stórhættulegar skepnur. Elsa flugvirki sem vinnur með okkur Atla kom líka og sá þá sveitina okkar í fyrsta skipti. Ása María vinkona mín og hjartahjúkka með meiru kom líka í stóðréttir og vildi líka fá hest og fara ríðandi þó að hún teljist seint vera hestamaður. Svo komu Siggi í Hörgsdal og Sissi á Dal alla leið norður til okkar líka! Semsagt.. bara góð ferð! 

Við stelpurnar fórum saman á bíl norður á föstudeginum og skemmtum okkur bara vel á leiðinni. Elsa fékk lánaðann hest hjá einum í vinnunni svo við fórum aukakrók að sækja það hross. Við vorum því heldur lengur á leiðinni en strákarnir en seint koma sumir en koma þó emoticon  Atli var búinn að grilla fyrir okkur þegar við komum en verst hvað við vorum lengi að vesenast í hrossunum að kjúklingurinn bæði brann og kólnaði..góður var hann samt! 

Þegar við komum heim á Mánaskál var komið myrkur. Planið var að setja hryssuna hennar Elsu í hólf með Hugsýn og folaldinu. Bæði vildi ég ekki sleppa henni út í myrkrið nema að hross væri nálægt og eins vildi ég ekki að Birta kenndi henni lífsreglurnar til morguns. Það vildi ekki betur til en svo að þegar ég var búin að sigta Hugsýn, folaldið og Vöku frá Birtu og Byltingu þá hljóp folaldið á hliðið og sleit allt draslið. Ég var svo hissa á þessu þar sem það stóð við hliðina á móður sinni þegar það tók á rás og æddi í gegn um girðinguna. Hrossin spýttust auðvitað eitthvað út í myrkrið og þá var að reyna að finna þau og koma þeim til baka. Hryssan hennar Elsu var enn á kerrunni og var hin rólegasta. Við Elsa fórum í hrossaleiðangur út á Suðurtúnið í kolniðamyrkri! Maður sá sko ekki tærnar á sér hvað þá meira en við sáum hrossin áður en við gengum á þau þar sem það gliltti í hvítt á skjóttu hryssunum. Annars var maður alveg eins og auli, alveg gjörsamlega staurblindur! Elsa var ótrúelega köld.. óð út á tún og hafði ekki einu sinni hugmynd um það hvað það væri stórt, eða hvort það væru skurðir... enda gekk hún akkúrat yfir gömlu tóftirnar í túninu og má þakka fyrir að hafa ekki dottið á hausinn emoticon  Hrossin komu svo auðvitað til baka á endanum og þetta endaði með því að Birta var ein tekin frá en hryssan hennar Elsu var sett saman við rest.

Á föstudagskvöldi var étið og aðeins smakkað vín..mis mikið þó! Allavega fórum við stelpurnar að sofa einhvern tíman um nóttina en það virðist sem strákarnir hafi ekki gert það! Á laugardagsmorgni var svo smurt nesti og drifið sig af stað í Langadalinn. Það gekk alveg eins og í sögu að handsama hryssuna sem Elsa kom með og setja hana á kerruna. Við komum á Strjúgsstaði á tilsettum tíma en hann reyndist heldur knappur þegar upp var staðið. Við vorum að verða sein af stað, langflestir lagðir af stað upp skarðið og Ása var sett í hnakkinn með engar leiðbeiningar og bara la go! 
 
Ferðin var rosalega skemmtileg og veðrið var frábært! Við fengum öll fína hesta undir hnakkinn þó svo að Elsa hafi verið áberandi best ríðandi. Rosalega spennandi hryssa sem hún fékk lánaða og heillaði okkur upp úr skónum. Siggi fékk hest í hendurnar sem var sagður þægur en lítið taminn.. ekki beint traustvekjandi en klárinn stóð sig vel eins og hin hrossin. Við Siggi hefðum alveg getað hugsað okkur að eignast hrossin sem við riðum í ferðinni og Elsa auðvitað líka! Við lögðum af stað kl 10 frá strjúgsstöðum í Langadal, vorum komin að Kirkjuskarði í Laxárdal rétt fyrir kl 14 og svo vorum við komin rúmlega 18 í Skrapatungurétt.Maður var alveg orðinn aumur og stirður enda langt síðan maður fór á bak síðast en það var ekkert sem smá Ibufen bjargaði ekki.

Eftir stóðreksturinn var grillað aftur og trallað heima á bæ þangað til við fórum á ball með Pöpunum á Blönduósi. Ballið var stórtgott og allir sáttir held ég. Dódó á Njálsstöðum reddaði okkur bílstjóra þar sem eini starfandi leigubílstjórinn á Blönduósi er próflaus og þar með gagnslaus! Signý systir Dódóar og Lilla keyrðu okkur á ballið emoticon og skiluðu okkur svo heim aftur.

Á sunnudag kíktu flestir í réttirnar en það höfðu ekki allir heilsu til þess. Í þetta skiptið var ég í hressara liðinu og hafði ekki undan neinu að kvarta emoticon  Við stoppuðum stutt í réttunum í þetta sinn en í staðinn var farið heim að ganga frá og dunda. Ég, Elsa og Sissi klipptum hófa og gáfum ormalyf á meðan aðrir hentu sér undir sæng á ný. Ég er rosa ánægð með nýja hófbítinn minn sem ég keypti fyrir helgina. Ég klippti öll hrossin sjálf og var ekki lengi að því svo ég segi sjálf frá. Hér áður gafst ég alltaf upp og lét Atla klippa því ég var orðin handlama. Góð verkfæri gera greinilega gæfumuninn og þetta gekk mjög vel. Við færum svo hrossin yfir á nýja stykkið fyrir neðan veg eftir að hryssan hennar Elsu var komin á kerruna. "Stóðið" mitt ætti sko að hafa nóg að bíta og brenna á næstunni því það er alveg vel loðið nýja stykkið.

Eftir að gestirnir renndu af stað til Reykjavíkur fór ég í kirkjugarðinn og setti niður nokkra haustlauka á leiðið hjá ömmu og afa. Ég held að ég sé búin að fá góða hugmynd að því hvernig við ættum að ganga frá leiðinu á næsta ári svo að það verði alltaf fallegt emoticon

Ég svaf svo nánast alla leiðina suður. Það var gaman að sækja Þórdísi til mömmu og pabba og hún tók svo hressilega á móti okkur þessi elska. Rosa glöð að sjá mömmu og pabba!  þegar við vorum komin í Njarðvíkina var sko mesta dótinu hent inn og gengið beint inn í herbergi og undir sæng Zzzzz Góð helgi að baki!!

Í öllum látunum við að koma sér af stað í hestaferðina skildi ég úlpuna eftir með bæði bjórnum og myndavélinni!! Ég stal reyndar myndavélinni af Sissa því ég vissi að ég myndi taka fleiri myndir en hann. Það koma því myndir vonandi fljótlega en ég er að bíða eftir þeim.

Atla gengur vel með íbúðarhúsið. Hann er nú búinn að klæða framhliðina líka og húsið lítur rosa vel út emoticon





Fleiri hestafréttir fyrir fólkið mitt.. því það hefur "endalausan" áhuga á hestum..
Það gengur vel með Drunga minn í tamningunni. Ylfa er farin að ríða honum um allt. Henni finnst hann líka heita of drungalegu nafni þar sem hann sé algjört yndi! Ég á því ekki von á öðru en að tamningin muni ganga hratt og vel fyrir sig og ég verði komin með nýja reiðhest áður en ég veit af! emoticon

Fleiri myndir í myndaalbumi!
Myndir væntanlegar frá stóðréttarhelginni!


  • 1
Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 303
Gestir í gær: 66
Samtals flettingar: 300768
Samtals gestir: 37197
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:26:41

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar