Mánaskál |
|
Færslur: 2010 Ágúst16.08.2010 21:18Sumarfríið búiðJæja þá er sumarfríið á enda þetta árið og maður getur byrjað að telja niður í næsta sumarfrí Við Þórdís og Særós héldum heim á leið á fimmtudaginn en Atli var væntanlegur heim á föstudagskvöld. Við biðum voða spenntar eftir honum og kvöldið fannst mér líða ansi hægt en Þórdís lagði sig á eðlilegum tíma og var svo bara ræst til að fara á flugvöllinn að sækja pabba. Ég var voða spennt að sjá viðbrögðin hjá henni þegar hún sæi pabba sinn aftur eftir 5 vikur í burtu. Við biðum prúðar í komusalnum og það var æði að sjá brosið sem færðist yfir andlitið á litlu stelpunni hans pabba síns þegar hann birtist fyrir framan hana. Hún vissi sko alveg hver hann var Atli færði Þórdísi svo dúkku þegar við komum heim og hún var alsæl!! Sumarfríið var frábært fyrir utan það að Atli var ekki með okkur í þetta skiptið. Veðrið lék við okkur þó svo að gróðurinn hefði kosið meiri rigningu. Atli er samt alveg sáttur við dvölina í Abu Dhabi í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum og svei mér þá ég held að hann langi bara að flytja þangað í 50° plús! Petra frænka frá Suðureyri og fjölskylda voru í fríi við Vesturhóp og fórum við Þórdís Katla í heimsókn og gistum eina nótt í bústaðinum hjá þeim. Við skemmtum okkur vel og borðuðum eðalmat a la Leifur. Það var gaman að sjá stelpurnar leika sér saman og vá hvað Petra hefur það stundum gott að eiga eina Sóldísi stóru systir til að leika við Vigdísi og aðstoða. Við skelltum okkur svo í sund á Blönduósi Leifur og Petra keyrðu svo á eftir mér inn í dal en Leifur rúntaði á GMC gamla en hann vantaði far heim frá skoðunarstöðinni á Blönduósi. Sóldís Björt, Þórdís Katla og Vigdís Eva Særós Ásta dóttir Lilju vinkonu www.hrossasott.com kom til mín og var í nokkra daga að aðstoða með Þórdísi. Eftir að mamma og pabbi fóru voru ekki mörg verkin sem ég gerði en eftir að Særós kom gat ég farið að vinna eitthvað. Við Særós kláruðum að girða nýja stykkið og "Sléttatún" eins og Særós vildi nefna það því það var eiginlega ekkert slétt þegar maður keyrði út á það! Við kláruðum líka að mála herbergið okkar Atla svo núna er orðið heldur betur vistlegt í svefnálmunni. Ég hlakka til að byrja á nýju herbergjunum sem verða í kjallaranum! Við fórum tvisvar í sund og áttum góðar stundir saman í sveitinni og vonandi kemur Særós aftur til mín næsta sumar að leika við Þórdísi Kötlu sem verður þá hvorki meira né minna en rúmlega 2 ára og enn meiri sveitastelpa sem heldur að hún geti allt! Þórdís hefur ofuráhuga á hrossum sem mömmunni líkar mjög vel og hún veit sko alveg hvað heyrist í hestunum .. dobbi dobbi dobbi dobb og svo hossar hún sér í takt hehe.. bara sæt! Særós var dugleg að sýna henni hestana svo daman var alsæl, mamman nefnilega nennir ekki alltaf að fara aftur og aftur að skoða dobbi dobb en Særós fékk alveg að vinna svolítið fyrir matnum sínum eins og mamma hennar orðar hlutina. Um daginn var allt í einu eitt hross inni í nýju girðingunni okkar en þar átti enginn að vera. Hrossastóð var fyrir utan girðinguna en þetta hross þurfti endilega að klína sér innfyrir en girðingin var ekki orðin 100% hrossheld því það var hátt undir hana á nokkrum stöðum og þar hefur hrossið örugglega labbað inn og svo ekki fattað að fara sömu leið út aftur. Við Særós og Þórdís röltum niðureftir og ætluðum að opna hliðin og reyna að koma hrossinu rétta leið út þegar ég sá að þetta var bara hann Drungi minn sem var komin heim! Óheppinn hann, við fórum bara heim og sóttum girðingaefni og lokuðum girðingunni betur svo kann fékk ekkert að fara út. Drungi hefur gengið laus síðan í vor þegar hann og Bylting sluppu út þar sem að girðingin hafði slitnað undir bæjarhólnum. Bylting kom heim á mjög þægilegan hátt þegar við Atli vorum að girða norðurtúnið en þá kom hún bara inn um hliðið þegar ég opnaði. Kannski eru hrossin mín bara svona skynsöm hehe Drungi greyjið fann samt ekkert fyrir neinum létti að vera kominn heim og var ekki alveg sama þegar stóðið hans fór svo bara frá honum. Við settum því Birtu yfir til hans sem félagsskap. Drungi lítur vel út, feitur og fínn og klárlega tilbúinn í tamningu fyrir utan horið í nösinni Fengur fékk svo flutning síðustu helgi heim á Meðalfell og þá fengu Birta og Drungi að fara heim til hinna. Drungi minn var reyndar eitthvað útskúfaður af fröken Birtu en það vonandi jafnar sig fljótt. Mamma gerðist aðal hestavinnumaðurinn minn og kom hrossunum í réttina fyrir mig áður en hestabíllinn kom og færði svo Birtu og Drunga milli hólfa líka. Hún gerði það nú líka svo flott að þeim var bara hleypt út á veg og látin elta brauðpokann heim.. engin þörf á múl greinilega Jarpa vinkonan hans Fengs kom til okkar aftur í lok sumarfrísins en hún hafði verið límd við girðinguna hjá hestinum í heila viku fyrr í sumar.. svona eins og eitt gangmál eða svo . Hún er ósköp stillt og fannst bara að hún ætti heima hjá okkur. Þegar hún kom í annað skiptið virtist hún fylgja Drunga og eftir að Fengur fór og Drungi var færður varð hún alveg vængbrotin og alein eitthvað. Mamma hálf vorkenndi henni. Ég veit ekki hver á þetta tryppi en kannski á hún bara heima í stóðinu mínu frekar Ég er búin að nefna hana Þörf þannig að ef hún hefur enn ekki fengið nafn hjá eiganda sínum þá er ég búin að bjarga málunum. Núna er það bara fimm daga vinnuvikan sem bíður okkar, reyndar eru bara 4 dagar eftir en við stefnum á ferð í Mánaskál næstu helgi. Skrifað af Kolla
Flettingar í dag: 39 Gestir í dag: 11 Flettingar í gær: 303 Gestir í gær: 66 Samtals flettingar: 300718 Samtals gestir: 37182 Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:05:40 |
Eldra efni
Tenglar
|
© 2024 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is