Mánaskál

Færslur: 2010 Júlí

31.07.2010 22:38

Fréttir úr sveitinni..

Sumarfríið hleypur áfram, sem betur fer Atla vegna. Það styttist í að hann komi heim en hann er væntanlegur 13. ágúst og við Þórdís Katla getum ekki beðið. Dagarnir hér í sveitinni hafa verið alveg frábærir en það vantar samt pabbann í hópinn til að fullkomna fríið! Við erum búnar að vera heppnar með veður en það hefur ekki rignt neitt að viti síðan við komum norður og flestir dagar hafa verið mjög sólríkir. Þórdís er orðin útitekin og ég er sko meira að segja farin að líta út eins og meðal jón á miðjum vetri hehe.  Ég er reyndar búin að fara mjög varlega í sólinni og nota sólarvörn óspart þar sem ég byrjaði sumarfríið á að fá sólarexem sem er ekki skemmtilegt. Mér hefur nú tekist að halda því niðri svo ég get ekkert kvartað.











Ekki eru allar fréttir góðar.. Hún Skella mín er farin til forfeðranna. Hún var svæfð 27/7 þá tæplega 7 ára. Set inn nokkrar myndir af henni en ég er með fáar núna við hendina.
Askan hennar verður svo jörðuð á Mánaskál eða henni dreift.








pínulítil og rosa sæt!!

Mamma og pabbi eru búin að vera með okkur mestallan tímann sem hefur verið frábært, bæði félagsskapur og svo ég hef geta gert meira en ella ef ég hefði verið alein með Þórdísi í sveitinni. Pabbi er svo búinn að vera mjög duglegur að hjálpa okkur og var eiginlega í hörku vinnu hér fyrstu dagana. Hann fékk það verkefni að sjá um heyskapinn og svo keyrði hann rúllurnar heim fyrir mig líka. Dagana fyrir heyskapinn var hann að dytta að vélunum og koma öllu í stand fyrir vertíðina svo þetta tók nokkra daga fyrir karlinn. Pabbi er líka búinn að gera við GMC fyrir okkur Atla svo nú er hægt að fara með gripinn í skoðun í næstu viku. Pabbi fór líka með litla Benz í skoðun í Rvk í síðustu viku fyrir okkur.



Einar á Neðri Mýrum er góður granni og hann kom og rúllaði fyrir okkur 25. júlí og fengum við 23 rúllur í þetta skiptið, heldur minna en ég hefði kosið en ætli ég splæsi ekki í einhvern áburð á næsta ári til að lífga upp á sprettuna. Ég á nokkrar rúllur frá því í fyrra og ætti því að eiga nóg ofan í "stóðið" mitt.  Pabbi rakaði saman suðurtúnið en það sprakk á fínu múgavélinni hans pabba og því var brugðið á það ráð að fá lánað dekk á Kúfskerpi. Ekki vildi betur til en að það passaði bara ekki og Einar bjargaði þá málunum og fór og sótti sína vél og var sko mikið fljótari að raka!



Ég er að reyna að vera dugleg í dundinu svo að Atli þurfi ekki að gera allt þegar hann kemur heim, það bíða hans alveg næg verkefni nú þegar. Ég var að klára að bera á skjólveggina á pallinum og er líka búin að bera á tréverkið við gluggana. Ég á eftir að bera á eitthvað aðeins í viðbót og klára það vonandi á næstu dögum. Ég er aldrei með bara eitt verkefni í gangi en núna stendur til að trukka af það sem komið er af stað. Ég er að undirbúa herbergið hans Agga undir málningu og verður enginn smá munur að sjá það herbergi hvítt en ekki bleikt eins og það hefur verið í tugi ára! Ég er líka byrjuð að hreinsa málningu af stiganum og ætla að reyna að gera hann upp og lakka hann. Ef þetta gengur vel þá ætti stiginn að verða voða gamaldags-huggulegur. Ég er mikið búin að velta fyrir mér hvernig ég ætti að loka gerðinu mínu og tók ákvörðun í vor að loka því með neti allavega til að byrja með. Þá komast allavega ekki lítil folöld út úr því næsta vor þegar maður fer að skoða dýrgripina sína J

Ég dreif mig í að klára réttina í gær þar sem ég á von á dýralækni hér eftir helgi til að sónarskoða hryssurnar
J ég er bæði spennt og kvíðin fyrir þessu því ég er búin að vera svo smeik um að hryssurnar séu ekki að fyljast. Núna er ég farin að róast því mér finnst eins og þær séu einhverjar orðnar fylfullar því þær ættu að vera byrjaðar í hestalátum aftur. Bylting gekk bara einu sinni að ég held og ég tel að hún ætti klárlega að vera búin að ganga aftur svo ég giska á að hún sé fylfull, Birta var í hestalátum þegar Fengur kom en fór svo aftur í hestalæti tveimur vikum seinna en ég hef ekki orðið vör við hestalæti í henni síðan þá (og það fer sko ekki á milli mála með þessa dömu) svo ég vona að hún sé fengin,  Vaka var í hestalátum þegar Fengur kom en líklega alveg í bláendann á gangmálinu, hún var svo að ganga aftur aðeins seinna en Birta nú síðast svo dýri ætti að sjá fyl í sónar eftir helgi ef hún hefur fengið. Annars var Fengur eitthvað að sýna henni áhuga í gær en ég vona að það þýði ekki að hún sé að byrja aftur í hestalátum heldur frekar að honum finnist hann hafa orðið of lítið að gera J Hugsýn er dálítið tvísýn þykir mér, ég er hrædd um að hún hafi ekkert gengið  og sé því tóm. Ef það reynist rétt hjá mér þá getur dýralæknirinn vonandi komið henni af stað svo hún nái einu gangmáli áður en Fengur fer til baka. Hestapestin er hér á þessum bæ ennþá! Hugsýn var að hósta þónokkuð hér um daginn en ég hef ekki heyrt í henni í einhverja daga. Annars held ég að öll hrossin séu búin að hósta einu sinni eða tvisvar svo ég heyri til síðan Fengur kom. Hvenær ætlar þetta eiginlega að vera búið! Ég heyri líka hrossin á dalnum hósta í þessi fáu skipti sem ég hef orðið vör við hross. Ég hef varla séð hross í tvær vikur eða þangað til stóru stóði var hleypt á dalinn, ég giska á að það séu hryssur frá Enni. Ég taldi lauslega milli 60-70 hryssur með folöldum og það er ótrúlega mikill tætingur á þessu stóði. Ég vona að þau séu að róast en þau hafa oftar en einu sinni komið á ferðinni út dalinn eins og þau væru með dauðann á hælunum og enginn elti! .. hrossunum mínum til mikillar "gleði" en þau uppveðrast að sjálfsöðgu við svona hamagang.







Litla bleikálótta Hugsýnardóttirin stækkar og dafnar en daman er ekkert smá fyndin. Hún er búin að fá mikinn umgang í sumar þar sem hrossin eru nánast hér uppi á hlaði og þurft að hlusta á barnaskríki og fleira skemmtilegt. Hundurinn er eitthvað á vappinu og svo bílar og allt þetta sem fylgir okkur.. en ef ég fer og gef hrossunum brauð þá koma þau auðvitað öll askvaðandi og hún með.. en ef ég hendi brauði til hennar þá "deyr" hún.. og það í hvert skipti! Hehe bara fyndin þessi elska. Ég var eiginlega í kasti um daginn þegar ég var að skutla til hennar brauðmolum og þeir voru allir stórhættulegir! Btw.. ég þarf að fara að fá nafn á dýrið! Annars uppnefni ég hana hehe.



Hrossin líta mjög vel út og ég er ánægð með þau. Birta og Vaka voru báðar of grannar síðasta vetur og voru búnar að braggast heilmikið á þessum mánuði sem þær voru í Víðinesi áður en ég kom með þær norður.  Í dag eru þær feitar! Við erum sko að tala um bumbur! Birta fer að ná sömu stærð og síðasta sumar! Hugsýn er búin að bæta á sig síðan hún kom norður og heldur vonandi áfram að safna á síðurnar fyrir veturinn. Bylting lítur líka mjög vel út en hún kom líka vel undan vetri. Fengur er búinn að bæta á sig líka en það er bara gott mál. Hann var vel trimmaður og flottur þegar hann kom og er aðeins búinn að fá ístru. Hann hefur það ógurlega gott þessa dagana og liggur voða mikið og sólar sig enda fá verkefnin þessa síðustu daga.


"Stóðið"


Bumbur!

Við fórum að veiða í Svínavatni í dag á bátnum. Það veiddust nokkrir tittir og þá meina ég í alvöru tittir! Þetta var ágætis skemmtun og skemmtilegur dagur til útivistar. Við fórum á húsbílnum og vagninn hennar Þórdísar var tekinn með svo við höfum allt til alls. Þórdís fékk ekki að veiða sjálf í þessari ferð en klárlega á næsta ári. Við vorum nefnilega bara að veiða úti á bátnum og hún er kannski of ung í svoleiðis ferðalag.






Særós Ásta dóttir hennar Lilju ætlar að koma í næstu viku og vera barnapía þangað til við förum heim. Ég veit að ég þarf engar áhyggjur að hafa af henni, hún er algjör sveitastelpa og við eigum bara eftir að hafa það gott hérna saman. Hún er líka búin að bíða eftir að fá að koma síðan síðasta sumar svo það er eins gott að ég standi undir væntingum ! Best að byrja að plana sundferðir og fleira skemmtilegt svo ég fái hana til mín á hverju sumri J

Elsku pabbi minn.. sakna þín svoooo og hlakka mikið til að koma á flugvöllinn að sækja þig og leika svo við þig fullt J Knúúuuss og kossar! Þórdís Katla sem er 18 mánaða eftir 2 daga!





með fínt hár..


.. mamma í alvöru hættu að taka myndir!!

Bestu kveðjur úr sveitinni

Fleiri myndir í myndaalbuminu Sumarfrí 2010!!

24.07.2010 20:15

Fréttir úr sveitinni

blogg er bara stutt og laggott, aðallega til að láta vita að það er kominn slatti af nýjum myndum í albumið okkar emoticon Sumarfríið flýgur áfram hjá okkur Þórdísi Kötlu. Mamma og pabbi eru með okkur á Mánaskál og eru búin að vera í nokkra daga. Veðrið hefur leikið við okkur síðan fríið hófst og ekkert lát er á blíðunni. Heyskapur er hafinn þrátt fyrir smá byrjunarörðuleika með sláttuvélina. Suðurtúnið er í þessum skrifuðu orðum sjálfsagt orðið slegið. Pabbi bjargar heyskapnum þetta árið því Atli er annað árið í röð erlendis þegar heyskapurinn bankar upp á. Hann er svo endalaust duglegur þessi maður að leggja það á sig að vera úti að vinna í 50°C plús!! Hann fær sko gott knús þegar hann kemur heim!!! Ég er að reyna að vera dugleg að gera eitthvað í fríinu og er nú þegar búin að bera á nýja tréverkið á húsinu, mála annað svefnherbergið og er að byrja á girðingavinnunni sem eftir er í nýjahestastykkinu okkar.

Fleiri myndir í myndaalbuminu!!






kyssa pabba!!

Þetta

12.07.2010 21:41

Hitt og þetta

Atli fór til Abu Dhabi í Sameinuðu Arabísku furstadænum snemma á föstudagsmorgun. Það var nú hálf erfitt að horfa á eftir honum og honum þótti heldur ekki auðvelt að fara. Hann ætlar að vera þarna í nokkrar vikur og okkur Þórdísi Kötlu hlakkar mikið til að fá hann heim emoticon Ferðalagið tók ansi marga klukkutíma, uþb 10 klst í flugi og millilending í London með tilheyrandi bið og hann var auðvitað mættur snemma í Leifstöð líka. Þegar hann loksins er lentur í "Langtíburtistan" fær hann að vita að það er stutt í að vaktin hans byrji.. frábært! Engin hvíld eftir flugið og beint á 12 tíma vakt. Ég fékk skilaboð frá honum seinnipartinn á laugardag en þá var hann fyrst að komast í hvíld upp á hótel. Duglegur þessi maður!!

Við mæðgur ásamt Sömbu fórum norður í Mánaskál á föstudaginn.Ferðin gekk mjög vel en það er alltaf gott að vera kominn á leiðarenda. Lólý og fjölskylda auk vinafólks gistu aðfaranótt föstudags í húsinu en það er bara fínt að fólk geti notfært sér aðstöðuna. Þau voru öll á leið á fótboltamót á norðurlandinu.


Samba komin í sveitina

Amma og afi í Hveró komu ásamt Ásu og Axel í Mánaskál á föstudagskvöld með nýja sófann í stofuna. Mamma keypti nefnilega svefnsófa því oft veitir ekki af að hafa gistipláss í sveitinni. Núna fjölgaði "herbergjunum" semsagt um eitt og fjölgar vonandi um 2 í viðbót þegar við klárum kjallarann sem verður vonandi í vetur emoticon Þessi sófi er svosum ekki frásögu færandi nema að það var útlit fyrir það á tímabili að sófinn yrði til eilífðarnóns í stiganum, upp ætlaði hann ekki blessaður fyrr en einhverjum datt í hug að taka hann í sundur hehe. Ég var farin að sjá fyrir mér að þurfa að saga sófann í tvennt eins og í Friends í gamla daga eða að saga handriðið frá sófanum til að losa hann emoticon  En upp fór gripurinn og sómir sér bara vel í stofunni okkar.




Á laugardaginn vorum við Þórdís að dunda okkur við að girða pínulítið og færa hrossin á milli hólfa. Þórdís er alveg hestasjúk og verður líklega til "vandræða" þegar hún stækkar. Hún er nú þegar farin að stinga af til að fara til hestanna emoticon hún hlustar sko ekkert á mömmu sína þegar hún reynir að útskýra að við erum búin að tala við hestana og við förum aftur seinna.. isss.. hún fer þá sko bara sjálf! Algjör perla þessi stelpa emoticon

Ég er að reyna að vera dugleg að taka myndir handa Atla svo hann missi af sem minnstu. Ég var því að búa til sér myndaalbum fyrir hann með myndum af Þórdísi sem vonandi verður stúfullt af skemmtilegum myndum á næstu dögum.


Haaaa..








Góða nótt pabbi minn emoticon

Þórdís er komin í sumarfrí frá dagmömmunni en ég aftur á móti ekki fyrr en eftir þessa viku. Þá er nú gott að eiga góða að. Jenný og Konni pössuðu dömuna í dag fyrir mig, hún ætlar svo að fara til Lólýjar og co á morgun og svo til ömmu og afa í Hveró þar á eftir. Hún er sko öllu von hún Þórdís, vanhirt og flækingsdýr á köflum emoticon  nei nei henni finnst þetta bara skemmtilegt og þroskandi.

Hrossin hafa það gott og Fengur hefur enn verkefni fyrir höndum. Birta var í hestalátum aftur núna svo ekki hefur hún fest fang um daginn en ég sá ekki neitt í gangi hjá Vöku. Ég hef ekki orðið vör við að Hugsýn hafi farið í hestalæti en vonandi er eitthvað að gerast núna. Lilja, Biggi og krakkarnir eru á norðurleið og munu pottþétt fylgjast vel með þessum málum fyrir mig.


frekar merkileg sjón.. Bylting bregur fyrir sér 5. gírnum!








Fengur virðir fyrir sér útsýnið




Báðar skjónurnar mínar eru hvítar milli kjálkabarðanna.. Bylting


.. og Hugsýn


Birta alltaf að glenna sig emoticon



Næstu helgi er Húnavaka á Blönduósi og við Þórdís ætlum að mæta galvaskar á krakkadagskrána. Ása María stefnir á að koma til okkar og okkur langar ógurlega mikið á Sálarballið en fyrst "barnapían" mín er í Abu Dhabi þá veit ég ekki hvernig það gengur. Ása er þó að reyna að redda okkur barnapínu af svæðinu emoticon Ég vona bara að ef við höfum það af að komast á ball að við verðum ekki áberandi "gamla liðið" á ballinu sem enn er að mæta hehehehe það er nefnilega ekki nema 16 ára aldurstakmark.

Fleiri fréttir og myndir síðar

******************************************************************************************************************
Systursonur Sömbu er í heimilisleit.
Hann Kersins Svarti Pétur sem er undan Þórdunu Séra Sóma og Týru systur Sömbu sem er eins og hún á litin, útiliti og hegðun!. Séra Sómi er undan frægu mórauðu Eyju og Pabbi Týru er einnig undan sömu mórauðu tík svo það er mikið mórautt blóð í þessum hundi. Í gotinu hans fæddist einn mórauður hundur sem býr hjá Helgu og heitir Kersins Undramundur.


Kersins Undramundur. www.kersins.is


06.07.2010 20:15

Helgarferð í sveitina

Ég dreif mig norður í sveitina strax eftir vinnu á föstudaginn enda búin að bíða alla vikuna eftir að komast í sæluna. Elsa Ýr flugvirki var samferða mér en hún er með annan fótinn í Víðidalnum á sumrin og er þar með sína hesta. Að sjálfsögðu var talað um hesta alla leiðina! Það var sko ekki leiðinlegt að hafa góðan félagskap á leiðinni.

Svenni og Sissi voru hjá Atla þegar ég kom norður og voru búnir að standa sig vel í vinnubúðunum. Svenni tók þó eftir því að Stéttarfélagið Samstaða á Blönduósi var farið að auglýsa fundi og taldi það beina afleiðingu frá því að Atli væri mættur á svæðið með þrælabúðirnar emoticon Við slóum svo upp grillveislu, á borðum var hreindýr, naut og hross. Mmmmm!

Síðastliðna viku var ansi margt gert, klárað að smíða í kring um gluggana, búið að steypa gólfið í kjallaranum og grunninn undir rafstöðvarhúsið, sníða og setja upp loftlista í "Agga" herbergi, smíða gluggakistu við nýja gluggan í því herbergi líka. Atli var líka byrjaður að setja grind utan á framhliðina til að hægt sé að klára að klæða þá hlið. Strákarnir voru þar að auki búnir að vera í girðingavinnu, allt er nú gert fyrir mig! emoticon


húsið að verða svo fínt emoticon

Þórdís Katla fór austur á Mosa með ömmu og afa í Hveró svo við Atli vorum bara ein í kotinu eftir að strákarnir drifu sig af stað á laugardaginn. Við eyddum helginni að mestu leyti í að girða fyrir neðan veg og er búið að loka girðingunni en ég mun klára að setja upp neðri vírinn sjálf. Ég vona að þetta stykki dugi eitthvað fyrir hrossin mín en þetta eru jú ferlegar sláttuvélar!


Horft heim á bæ úr nýja hestastykkinu



Fengur er búinn að vera stilltur og prúður heima við bæ að sinna hryssunum. Ég tók eitthvað af myndum af honum og hryssunum þegar ég kom með hann þar síðustu helgi en var ekki búin að koma myndunum á netið. Þær eru semsagt loksins komnar inn. Ég tók lítið af myndum þessa helgina þrátt fyrir feikinóg myndefni en ég var alltaf að glata myndavélinni en sem betur fer fann ég hana alltaf aftur.

n
Fengur mættur í Laxárdalin


.. aðeins að sýna sig fyrir dömurnar






.. og viti menn ein var til í tuskið!


... og önnur!

Atli kom svo með mér í bæinn svo ég fékk Guðrúnu í Tungu til að líta á eftir hrossunum í nokkra daga. Ég get ekki beðið eftir að komast í sveitina til að eyða sumarfríinu þar. Ég verð með næg verkefni eins og að girða, mála, bera á timbrið og fleira emoticon  Svo ætlum við Þórdís Katla auðvitað að eiga gott frí líka saman og fara í sund og göngutúra og auðvitað skoða hestana en daman er þegar farin að sýna hrossunum áhuga emoticon . Særós Ásta dóttir Lilju og Bigga ætlar að koma til mín í ágúst og það verður örugglega rosalega gaman hjá okkur. Hún verður eflaust dugleg að aðstoða mig með Þórdísi.

  • 1
Flettingar í dag: 39
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 303
Gestir í gær: 66
Samtals flettingar: 300718
Samtals gestir: 37182
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:05:40

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar