Júní þýtur afram og verður búinn áður en maður veit af! Við Þórdís Katla fórum á 17. júní skemmtun á Rútstúni í Kópavogi. Þetta var alveg fínasti dagur, gott veður og allt. Lólý, Kiddi og krakkarnir komu líka og svo var mamma í handverkstjaldinu með bás ásamt Emblunum í Bjarkarási. Þórdís fékk blöðru og fána og allt tilheyrandi og skemmti sér mjög vel. Þarna var mikið um að vera, söngur og sprikl, Latibær og fleira skemmtilegt.
Við fórum norður í sveitina um helgina með Jóa frænda hans Atla og krökkunum hans. Með í ferð voru hryssurnar okkar sem voru hér fyrir sunnan og nýja hryssan hún Hugsýn og folaldið hennar sem Gummi og Sjöfn á Baugsstöðum eiga. Atli og Jói fóru á föstudaginn austur að Baugsstöðum að sækja Hugsýn og folaldið og hittu okkur Þórdísi svo í Víðinesi þar sem Birta og Vaka voru. Hermann í Víðinesi smalaði fyrir mig á föstudagsmorgun svo dömurnar biðu eftir mér inni í stíu. Ekkert smá góð þjónusta að geta haft hrossin tilbúin þegar maður kemur að sækja þau. Atli var duglegur að vatna hryssunum alla leiðina norður svo það fór bara vel um alla. Atli, Jói og Axel fóru á Gemsanum með hestakerruna en við stelpurnar, Guðrún Árný, Ása Lind og Þórdís Katla fórum á bílnum hans Jóa. Spenningurinn var mikill og ekkert sofið alla leiðina!
Þegar við vorum loksins komin í Laxárdalinn sprakk á jeppanum og affelgaðist! Þetta gerði lítið til því varadekkið var með í ferð og strákarnir voru skotfljótir að skipta um. Atli og Jói tóku svo hryssurnar af kerrunni á meðan ég sinnti Þórdísi. Hugsýn var frekar skondin, hún harðneitaði að fara yfir bæjarlækinn, enginn læti eða neitt, bara sá greinilega ekki ástæðu fyrir því að fara þarna yfir! Það kemur sér vel að hún er dauðspök og maður tekur hana hvar sem er því hún átti að fylgja hinum hryssunum yfir á norður túnið en gerði það svo ekki. Eftir þó nokkrar æfingar lét hún sig loksins hafa það að fara yfir lækinn, það er greinilegt að það hafi ekki verið lækir í hennar sveit Hryssurnar voru ánægðar að vera komnar á leiðarenda og fóru bara beint á beit, ekki einu sinni gefinn tími til að hlaupa um og skoða hólfið.
Á laugardaginn fór ég með stelpurnar í kvennahlaupið á Blönduósi. Þórdís er þar með búin að fara tvisvar í kvennahlaup og fá gullpening.. klárlega íþróttakona eins og mamma sín. Eftir hlaupið fengu krakkarnir að leika sér á fjórhjólinu sem Jói kom með fyrir þau. Ekkert smá stuð að eiga svona dót!
Guðrún Árný var þrælflink á hjólinu
Atli og Jói röltu niður á mel þar sem járnadrasl stendur, þar á meðan gamli Zetorinn hans afa sem var hent fyrir mörgum árum. Þeir höfðu með sér bjór og spreybrúsa og ákváðu að koma traktórnum í gagnið aftur. Á traktorinn fór dísel olía, smá sprey og klapp og svo var hann dreginn upp á veg og dreginn örstuttan spotta eftir veginum og hóst hóst og í gang fór hann! og var svo keyrður alla leið upp á hlað!
Guðrún Árný og Ása Lind á hjólinu en Axel og Þórdís Katla vilja ólm fá að fara á það líka!
mikið um að vera á melnum
Zetor 3511 árgerð 1969
verið að draga gamla Zetor af stað
ekki dauður úr öllum æðum ennþá!
kominn heim á hlað
Krakkarnir áttu góða helgi og við fullorðna fólkið ekki síður. Það er rosalega gaman að fá skemmtilegt fólk með sér og extra gaman ef það eru börn líka. Þórdís skemmtir sér svo miklu betur með góða leikfélaga Ég held að það séu bara allir mjög sáttir eftir þessa ferð!
Axel leiðir Þórdísi áfram
Atli fer aldrei norður nema að koma einhverju í verk í leiðinni. Í þessari ferðinni var settur í nýr gluggi á baðinu. Enginn smá munur að sjá út! og geta opnað glugga
Núna eru allir gluggarnir komnir í á þessari hlið
Á aðfaranótt sunnudags birtist allt í einu hundur á hlaðinu hjá okkur. Ég vissi nú ekkert hvað ég átti að gera við hann en ákvað að taka hann inn og hringja svo út um morguninn til að finna hvaðan hann kom. Ekki vildi betur til en að tíkin opnaði allar hurðir og vildi ekki vera inni. Þegar hún byrjaði að hamast á útidyrahurðinni og hafði ekki að opna hana fór ég á fætur og hleypti henni út, hún hlaut að fara heim til sín. Viti menn þegar ég fór á fætur um morguninn þá heyrði ég væl neðan úr forstofu og þar var hún! Búin að hleypa sér inn aftur, vildi greinilega vera inni eftir allt. Ég hringdi svo á Syðri Hól til að forvitnast um líklega eiganda. Magnús benti mér á að hafa samband við Njálsstaði því þar væru ungir hundar sem gætu hafa farið að kanna heiminn.. og viti menn hundurinn var frá þeim.. EN þetta var sko bara hún Skessa, enginn unghundur þar á ferð en líklega fékk hún nóg af ungu hundunum sem voru í pössun og flutti út tímabundið
Ég kann mjög vel við það að hafa hrossin heima við bæ, mér finnst æðislegur sjarmur yfir því. Nýju hryssurnar hafa það bara gott núna, liggja á meltunni hálfan daginn og standa á beit hina stundina.
Vaka og Birta líta mjög vel út og hafa bætt helling á sig á þessum mánuði sem þær hafa verið úti. Hugsýn er einnig í góðu standi og orðin ansi stóðmerarleg, faxprúð og belgmikil.. bara æði
óskírð Hugsýnardóttir frá Baugsstöðum
Á sunnudaginn skiluðum við hestinum hennar Signýjar yfir á Balaskarð og settum Byltingu saman við hinar hryssurnar. Hugsýn og Bylting fengu ormlayf en Vaka og Birta fengu ormalyf áður en þær fóru út. Við Atli klipptum líka hófa á Byltingu en þá er Hugsýn eftir og svo Drungi þegar hann verður í færi. Við klippum Hugsýn bara næstu helgi úti í hólfi þar sem hún næst allsstaðar þessi elska.
Atli og Þórdís Katla fara svo aftur í sveitina á miðvikudaginn en þá ætla Sveinbjörg og Gunnar líka að fara norður og vera í viku. Þórdís fær þá að leika við ömmu í Hveró á meðan feðgarnir finna sér einhver skemmtileg verkefni. Ég byrja ekki í fríi fyrr en um miðjan júlí en þangað til fer ég norður til Atla um helgar
Fleiri myndir í myndaalbumi