Mánaskál

Færslur: 2010 Júní

28.06.2010 22:05

Fréttir af síðustu dögum

Jæja þá er sumarið virkilega farið að fljúga áfram Atli og Þórdís Katla eru fyrir norðan á meðan ég er að vinna ennþá. Það er ferlega skrítið að vera svona alein heima en alveg gott líka að hafa allan tíman í heiminum til að vera latur eða hvað sem maður vill gera. Þórdís kemur svo í bæinn í þessari viku en fer svo austur á Klaustur um helgina með ömmu og afa í Hveró. Næstu helgi er svokölluð Mosahelgi en þá hittist familían á Mosum og á góðar stundir saman. Þórdís ætlar að mæta sem fulltrúi okkar fjölskyldu því við Atli ætlum að vera fyrir norðan.

Á föstudaginn fór ég norður með Ásu vinkonu en hún var á leiðinni á Akureyri í skemmtiferð. Það var rosa gott að hitta Atla og Þórdísi Kötlu. Þórdís meira að segja fékk að vaka eftir mömmunni sinni sem mamman var sko ánægð með! Við áttum mjög fína helgi í rosa góðu veðri emoticon það er sko ekki hægt að biðja um meira!

Atli og Gunni voru á fullu að skipta um glugga fyrir helgina, núna eru komnir nýjir gluggar á suðurgaflinn og vá hvað þetta munar miklu! Þeir eru svo búnir að vera að sníða efni í kring um gluggana síðustu daga svo það fer að koma rétt útlit á húsið. Atli er svo núna að setja grind utan á restina af framhliðinni svo hægt sé að klára að klæða hana emoticon







Á laugardaginn fórum við svo á Vatnsleysu í Skagafirði að sækja Feng frá Meðalfelli sem ætlar að sinna hryssunum okkar í sumar. Mér líst mjög vel á þennan hest, bæði myndarlegur og með góðar hreyfingar og ættin er auðvitað bara frábær. Það var rosalega gaman að fylgjast með hrossunum þegar við slepptum honum samanvið. Hann hvíaði fyrir allan peninginn og varð auðvitað voða töffari og karlmenni til að ganga í augun á hryssunum. Við Atli vorum að tala um það á leiðinni að það væri leiðinlegt hans vegna að komast loksins út og í merar og engin þeirra vildi hann samt. Ég átti nefnilega ekki von á að nein væri að ganga.. það reyndist sko ekki rétt því Vaka og Birta voru svo bara báðar í látum og hann fékk nóg að gera emoticon Vaka var líklegast að klára gangmálið þar sem hún var ekki eins spennandi á sunnudeginum. Birta var aftur á móti mjög spenanndi og aðgangshörð bæði laugardag og sunnudag. Mér finnst rosalega gaman að fylgjast með hvernig hrossin haga sér, t.d. giska ég á að Bylting sé að fara að byrja í látum bara afþví hvernig hún lætur við hann. Svo er líka merkilegt hvað þessir stóðhestar þurfa að þola, það er engin smá harka í merunum og þeir þurfa sko alveg að vinna fyrir matnum sínum annars fá þeir það bara óþvegið.

Ég klikkaði aldeilis á aðalatriðinu þessa helgina en það eru myndirnar af stóðhestinum. Ég tæmdi vélina í tölvuna mína og lánaði svo Atla tölvuna og eyddi myndunm úr vélilnni. Ég set því ekki inn myndir af Feng fyrr en eftir næstu helgi.





Þórdís Katla var algjört yndi um helgina, það var svo gaman hjá henni að göslast úti. Hún fékk sandkassa framan við húsið um helgina sem á örugglega eftir að nýtast vel. Það er sko allt nýtt í sveitinni en nýji sandkassinn er sko umgjörðin utan um gamla baðgluggann emoticon









Atli lagaði sjónvarpið um helgina, þvílíkt kraftaverk því það hefur verið sjónvarsplaust í Mánaskál í marga mánuði og Atli heldur betur glaður að geta séð einhverja HM leiki. Það þurfti kannski HM til að farið yrði í sjónvarsviðgerðir að einhverju marki.. þarna er ég allavega búin að finna eitt jákvætt við HM emoticon

Svo er það bara að láta þessa vinnuviku klárast og drífa sig aftur norður yfir helgina, get ekki beðið!

21.06.2010 21:02

17. júní og frábær helgi að Mánaskál

Júní þýtur afram og verður búinn áður en maður veit af! Við Þórdís Katla fórum á 17. júní skemmtun á Rútstúni í Kópavogi. Þetta var alveg fínasti dagur, gott veður og allt. Lólý, Kiddi og krakkarnir komu líka og svo var mamma í handverkstjaldinu með bás ásamt Emblunum í Bjarkarási. Þórdís fékk blöðru og fána og allt tilheyrandi og skemmti sér mjög vel. Þarna var mikið um að vera, söngur og sprikl, Latibær og fleira skemmtilegt.







Við fórum norður í sveitina um helgina með Jóa frænda hans Atla og krökkunum hans. Með í ferð voru hryssurnar okkar sem voru hér fyrir sunnan og nýja hryssan hún Hugsýn og folaldið hennar sem Gummi og Sjöfn á Baugsstöðum eiga. Atli og Jói fóru á föstudaginn austur að Baugsstöðum að sækja Hugsýn og folaldið og hittu okkur Þórdísi svo í Víðinesi þar sem Birta og Vaka voru. Hermann í Víðinesi smalaði fyrir mig á föstudagsmorgun svo dömurnar biðu eftir mér inni í stíu. Ekkert smá góð þjónusta að geta haft hrossin tilbúin þegar maður kemur að sækja þau. Atli var duglegur að vatna hryssunum alla leiðina norður svo það fór bara vel um alla. Atli, Jói og Axel fóru á Gemsanum með hestakerruna en við stelpurnar, Guðrún Árný, Ása Lind og Þórdís Katla fórum á bílnum hans Jóa. Spenningurinn var mikill og ekkert sofið alla leiðina!

Þegar við vorum loksins komin í Laxárdalinn sprakk á jeppanum og affelgaðist! Þetta gerði lítið til því varadekkið var með í ferð og strákarnir voru skotfljótir að skipta um. Atli og Jói tóku svo hryssurnar af kerrunni á meðan ég sinnti Þórdísi. Hugsýn var frekar skondin, hún harðneitaði að fara yfir bæjarlækinn, enginn læti eða neitt, bara sá greinilega ekki ástæðu fyrir því að fara þarna yfir! Það kemur sér vel að hún er dauðspök og maður tekur hana hvar sem er því hún átti að fylgja hinum hryssunum yfir á norður túnið en gerði það svo ekki. Eftir þó nokkrar æfingar lét hún sig loksins hafa það að fara yfir lækinn, það er greinilegt að það hafi ekki verið lækir í hennar sveit emoticon Hryssurnar voru ánægðar að vera komnar á leiðarenda og fóru bara beint á beit, ekki einu sinni gefinn tími til að hlaupa um og skoða hólfið.

Á laugardaginn fór ég með stelpurnar í kvennahlaupið á Blönduósi. Þórdís er þar með búin að fara tvisvar í kvennahlaup og fá gullpening.. klárlega íþróttakona emoticon eins og mamma sín. Eftir hlaupið fengu krakkarnir að leika sér á fjórhjólinu sem Jói kom með fyrir þau. Ekkert smá stuð að eiga svona dót!


Guðrún Árný var þrælflink á hjólinu

Atli og Jói röltu niður á mel þar sem járnadrasl stendur, þar á meðan gamli Zetorinn hans afa sem var hent fyrir mörgum árum. Þeir höfðu með sér bjór og spreybrúsa og ákváðu að koma traktórnum í gagnið aftur. Á traktorinn fór dísel olía, smá sprey og klapp og svo var hann dreginn upp á veg og dreginn örstuttan spotta eftir veginum og hóst hóst og í gang fór hann! emoticon  og var svo keyrður alla leið upp á hlað!








Guðrún Árný og Ása Lind á hjólinu en Axel og Þórdís Katla vilja ólm fá að fara á það líka!




mikið um að vera á melnum


Zetor 3511 árgerð 1969




verið að draga gamla Zetor af stað


ekki dauður úr öllum æðum ennþá!


kominn heim á hlað emoticon

Krakkarnir áttu góða helgi og við fullorðna fólkið ekki síður. Það er rosalega gaman að fá skemmtilegt fólk með sér og extra gaman ef það eru börn líka. Þórdís skemmtir sér svo miklu betur með góða leikfélaga emoticon  Ég held að það séu bara allir mjög sáttir eftir þessa ferð!


Axel leiðir Þórdísi áfram






Atli fer aldrei norður nema að koma einhverju í verk í leiðinni. Í þessari ferðinni var settur í nýr gluggi á baðinu. Enginn smá munur að sjá út! og geta opnað glugga emoticon





Núna eru allir gluggarnir komnir í á þessari hlið

Á aðfaranótt sunnudags birtist allt í einu hundur á hlaðinu hjá okkur. Ég vissi nú ekkert hvað ég átti að gera við hann en ákvað að taka hann inn og hringja svo út um morguninn til að finna hvaðan hann kom. Ekki vildi betur til en að tíkin opnaði allar hurðir og vildi ekki vera inni. Þegar hún byrjaði að hamast á útidyrahurðinni og hafði ekki að opna hana fór ég á fætur og hleypti henni út, hún hlaut að fara heim til sín. Viti menn þegar ég fór á fætur um morguninn þá heyrði ég væl neðan úr forstofu og þar var hún! Búin að hleypa sér inn aftur, vildi greinilega vera inni eftir allt. Ég hringdi svo á Syðri Hól til að forvitnast um líklega eiganda. Magnús benti mér á að hafa samband við Njálsstaði því þar væru ungir hundar sem gætu hafa farið að kanna heiminn.. og viti menn hundurinn var frá þeim.. EN þetta var sko bara hún Skessa, enginn unghundur þar á ferð en líklega fékk hún nóg af ungu hundunum sem voru í pössun og flutti út tímabundið emoticon

Ég kann mjög vel við það að hafa hrossin heima við bæ, mér finnst æðislegur sjarmur yfir því. Nýju hryssurnar hafa það bara gott núna, liggja á meltunni hálfan daginn og standa á beit hina stundina.
Vaka og Birta líta mjög vel út og hafa bætt helling á sig á þessum mánuði sem þær hafa verið úti. Hugsýn er einnig í góðu standi og orðin ansi stóðmerarleg, faxprúð og belgmikil.. bara æði emoticon








óskírð Hugsýnardóttir frá Baugsstöðum



Á sunnudaginn skiluðum við hestinum hennar Signýjar yfir á Balaskarð og settum Byltingu saman við hinar hryssurnar. Hugsýn og Bylting fengu ormlayf en Vaka og Birta fengu ormalyf áður en þær fóru út. Við Atli klipptum líka hófa á Byltingu en þá er Hugsýn eftir og svo Drungi þegar hann verður í færi. Við klippum Hugsýn bara næstu helgi úti í hólfi þar sem hún næst allsstaðar þessi elska.

Atli og Þórdís Katla fara svo aftur í sveitina á miðvikudaginn en þá ætla Sveinbjörg og Gunnar líka að fara norður og vera í viku. Þórdís fær þá að leika við ömmu í Hveró á meðan feðgarnir finna sér einhver skemmtileg verkefni. Ég byrja ekki í fríi fyrr en um miðjan júlí en þangað til fer ég norður til Atla um helgar emoticon

Fleiri myndir í myndaalbumi

14.06.2010 23:35

Fer í Mánaskál og fleira

Ég var að bæta inn myndum í myndaalbumið sem ég tók af Þórdísi Kötlu fyrir nokkrum dögum hérna úti í garði. Hún er orðin svo mikill krakki.. ég er bara ekki að átta mig á því hvað hún stækkar hratt! Sjálfsagt finnst öllum foreldrum þetta emoticon Ég er nú líka alltaf að furða mig á foreldrahlutverkinu. Ég vissi að þetta væri æðislegt en þetta kemur samt sífellt á óvart! Það eru þvílík forréttindi að eiga börn.. og sérstaklega svona æðislega litla stelpurófu sem foreldrarnir sjá ekki sólina fyrir emoticon









Við Atli fórum barnlaus í Mánaskál á laugardaginn í stutt stopp. Þórdís Katla var hjá ömmu og afa í Hveró á meðan og skemmti sér eflaust mjög vel. Aðal tilgangur ferðarinnar var að slækja húsbílinn til að nota sem hestabíl og fleira. Hryssurnar eru að fara norður og það styttist í að við sækjum stóðhestinn.

Við fengum alveg ágætis veður, þurrt á laugardeginum en svo byrjaði að rigna á sunnudag. Túnin og hestahólfin eru farin að grænka vel og vætan sl. daga hefur örugglega góð áhrif á sprettuna.









Atli hífði camperinn af pallinum með traktórnum og honum var komið fyrir á hlaðinu þannig að hægt verði að nota hann í sumar ef auka pláss vantar.





Við notuðum líka tækifærið og kláruðum girðinguna á norðurtúninu. Við áttum eftir að staga hornstaurana og ýmislegt smálegt.





Eins og ég var búin að fjalla um áður þá sluppu hrossin mín út í apríl eða maí. Girðingin var slitin á einum stað og þau trítluðu yfir í stóðið hennar Signýjar. Ég ætla að halda Byltingu nú í sumar svo ég þurfti auðvitað að handsama dömuna og sá jafnvel fyrir mér að það yrði einhver fyrirhöfn. Hrossin komast yfir svo stórt svæði og oft langt að sækja þau. T.d. var stóðið hátt í Langadalsfjalli þegar við komum á laugardaginn. En viti menn! Þegar við Atli vorum að klára girðinguna á sunnudag kemur stóðið trítlandi og Bylting í broddi fylkingar. Ég opnaði hliðið á norðurendanum á túninu og stóðið kom inn á tún emoticon Við Atli sigtuðum svo fröken Byltingu frá stóðinu með því að lokka hana inn í lautina. Sko ég vissi að allar þessar girðingar og hlið kæmu að góðum notum emoticon Drungi var ekki í þessum hrossahóp svo mig vantaði hross til að hafa með Byltingu þangað til hinar hryssurnar koma norður. Ég fékk því lánaðann einn reiðhest frá Signýju. Singý er nýbúin að hitta Drunga svo ég hef engar áhyggjur af honum, hann hefur bara fundið sér betri félagsskap.







Við Atli verðum á ferðinni norður aftur fljótlega, hugsanlega aðeins fyrr en við höfðum gert ráð fyrir. Við komum þá með hryssurnar með okkur og sækjum svo Feng á Vatnsleysu. Ég get ekki beðið eftir að eyða sumarfríinu í sveitasælunni. Þórdís á eftir að skemma sér svo vel líka og ég hlakka til að upplifa það með henni emoticon

Nýjar myndir í myndaalbuminu
OG
Ný myndbönd líka!

05.06.2010 23:03

fréttir og ekki fréttir

Það er ekki margt að frétta af okkur um þessar mundir. Atli átti þó afmæli þann 3. júní og varð einu árinu eldri. Hann ber þó aldurinn vel drengurinn emoticon 

Við Þórdís Katla fórum á hátíðina Sjóarann síkáta í Grindavík í dag. Þetta er rosalega fín fjölskylduhátið þar sem mikið er um að vera fyrir börnin. Þórdís sá brúðubílinn og fannst sýningin mjög áhugaverð, sérstaklega þegar það var sungið emoticon Ég held að við mætum klárlega aftur á næsta ári og aldrei að vita nema maður mæti með húsbílinn og verði yfir helgina.

Við Atli erum búin að komast að niðurstöðu með stóðhest fyrir sumarið. Við fáum Fengur frá Meðalfelli til okkar í sumar. Fengur er vel ættaður foli sem örugglega eftir að gefa okkur fín folöld að ári. Ég setti upp sér síðu fyrir hann undir Stóðhestur 2010. Ég fæ vonandi betri myndir af honum fljótlega.

Ég var að setja inn myndband af Þórdísi Kötlu á YouTube http://www.youtube.com/watch?v=-Km9qlv65xM bara svona til gamans. Hér er hún að æfa sig að hoppa emoticon

Þangað til næst..

  • 1
Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 303
Gestir í gær: 66
Samtals flettingar: 300768
Samtals gestir: 37197
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:26:41

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar