Mánaskál

Færslur: 2010 Maí

26.05.2010 19:40

Sumarið er skollið á emoticon sem er bara frábært!
Allar einkunnir eru komnar í hús og ég er bara sátt við árangurinn. Ég er nú bara að standa mig ansi vel miðað við tíma og aðstæður svo núna er stefnan sett á útskrift að ári! Get ekki beðið! Nú ætla ég að njóta sumarsins áður en ég fer að hugsa um skólann aftur.

Við fjölskyldan fórum austur á Kirkjubæjarklaustur síðustu helgi í jarðarförina hans afa. Athöfnin var mjög falleg, sérstaklega minningarathöfnin í Reykjavík. Við vorum heppin með veður og bara allt gekk upp. Það var gaman að koma austur þó svo að maður hefði kosið aðrar aðstæður og það var fræbært að hitta allt fólkið sitt, það er allt of sjaldan sem fjölskyldan kemur öll saman. Því miður gátum við ekki stoppað en það hefði verið svo flott að eyða helginni á Klaustri fyrst maður var kominn þangað.

Þórdís Katla fór svo heim í Hveró með ömmu og afa og var hjá þeim fram á mánudag. Við Atli fórum beint frá Klaustri norður í Mánaskál með nýju sláttuvélina okkar á kerrunni emoticon  Sláttuvélina fengum við hjá Kjartani í Fagurhlíð svo hún fór í dágott ferðalag.

Við eyddum helginni í traktoraviðgerð og girðingavinnu. Við lokuðum norðurtúninu og löguðum girðinguna sem var slitin. Ég verð alveg að skammast mín og segja frá því að ég tók engar myndir í þessari ferð þrátt fyrir æðislegt veður og góða helgi emoticon  Þórdís Katla átti líka góða helgi í Hveró, fór í sund og veislu og lét örugglega stjana við sig alla helgina!

Vaka og Birta eru farnar út. Þær fóru til bráðabirgða upp í Mosfellsbæ og fara alla leið norður þegar þær hafa jafnað sig á hestapestinni sem er að ganga. Til að bæta hrossaflutningum á mína könnu þá var ég að fá mér aðra hryssu. Sú er jarpskjótt Kjarvalsdóttir og fer beint í folaldseign hjá mér. Merin heitir Hugsýn og hefur verið í folaldseign síðustu ár með góðum árangri. Undir henni gengur folald í dag svo það verður lítið folald að skottast hjá mér í sumar. Ég kannaðist við þessa hryssu og hef þekki til systkina hennar og hafa þau verið notuð í keppnir með góðum árangri. Ég held að ég verði ekki svikin af þessum kaupum.

Ég er að vona að ég fái betri myndir af Hugsýn en ég ætla að pósta því sem ég hef af henni núna.




Hugsýn með Hnykk hennar Lilju


Hugsýn að hausti, Lilja heldur í.

Að fleiri gleðifréttum þá var afsalið fyrir Mánaskál að koma í pósti í dag. Við Atli erum semsagt búin að kaupa Agga út og ætlum að gera jörðina upp i framtíðinni. Nú get ég klárlega farið að safna hrossum emoticon  Í dag eigum við rúma 300 ha undir hvert hross.. ég held að ég hafi pláss fyrir fleiri emoticon 

Núna eru stóðhestapælingar á fullu og ekki veitir af fyrst ég er að bæta við mig hryssum. Ég á þá núna tvær jarpskjóttar, tvístjörnóttar hryssur og leiðist það ekki. Það er margt í stöðunni með stóðhesta og ég hef sko farið í marga marga hringi.

Ég fór fyrir nokkrum dögum til Helgu í Miðengi að kíkja á Hvata frá Miðengi. Sá er 3 vetra móvindóttur foli undan Eið frá Oddhóli og er arfhreinn um vindótta litinn, gefur semsagt eingöngu vindótt! Klárlega plús.







Um helgina er svo Eurovision og þrif hjá Lólý systir en það má ekki láta svona óléttar stelpur púla við þrif í nýbyggingunni. Ég vona að við Þórdís getum gert meira gagn en ógagn.

Þangað til næst..

15.05.2010 23:02

Komið sumar

Jæja já.. eigum við eitthvað að ræða það hvað tíminn liður hratt! Mér finnst dagarnir og vikurnar fljúga áfram og áður en ég veit af eru orðnar margar vikur frá síðasta bloggi.

Ég er búin í prófum emoticon og er alsæl með það! Þetta er alltaf erfið törn og tekur á alla fjölskylduna. Ég er svo heppin að hafa í kring um mig gott fólk sem hjálpar okkur í gegn um þetta því ég þarf oftar en ekki pössun á meðan prófundirbúningi stendur. Svefninn var líka af skornum skammti á meðan á ósköpunum stóð og ég var sko klárlega andlega fjarverandi þegar ég mætti í vinnuna strax eftir síðasta prófið, ég var algjörlega ónothæf af þreytu! Annars held ég að prófin hafi bara gengið vel, ég er búin að fá fyrstu einkunn í hús sem var sko bara alveg í lagi og vonandi verð ég sátt við það sem kemur á eftir.

Atli var svo sætur í sér að hann keypti handa mér gjöf í tilefni próflokanna. Tvíbreið sæng og rúmföt fyrir Mánaskál! bara æði því ég þoli ekki að sofa með tvær sængur og ekki einu sinni eins sængur.. bara vesen. Ég á því eftir að sofa eins og engill á Mánaskál í sumar í nýju sænginni minni.. og já Atli má nota hana líka emoticon

Ég trúi varla að ég hafi verið að ljúka 2. árinu mínu í HA, þetta líður rosalega hratt! Ég er sko farin að sjá fyrir mér útskriftina emoticon alveg merkilegt! Ég stefni á útskrift næsta vor þó að það þýði að ég taki tvær annir í 120% námi til að klára á tíma. Ég verð ekki búin með mitt nám þegar ég klára þetta svo það er eins gott að halda áfram.

Þórdís fór í húsdýragarðinn með ömmu Gústu, Ágústi og Söndru á meðan mamma var að læra






Við Atli og Þórdís Katla fórum austur á Klaustur síðustu helgi. Atli var að fara á fund hjá veiðifélaginu en við Þórdís fórum bara í heimsókn í sveitina og kíktum á sauðburðinn. Það voru margir mánuðir síðan við komum síðast austur svo þetta var kærkomið frí. Þórdís skemmti sér mjög vel í fjárhúsunum og fannst þetta allt mjög merkilegt.







Haddi afi á Klaustri lést á fimmtudaginn öllum að óvörum. Við erum því á austurleið aftur, í þetta skipti í jarðarför.



Það er svo skrítið að hugsa til þess að hann sé dáinn, hann var að kaupa sér húsbíl og hlakkaði til að fara í húsbílaferðir í sumar. Manni datt ekki einu sinni í hug að hann væri að fara að skilja við þennan heim. Svona er lífið víst, við munum öll hittast aftur síðar.

Við Þórdís Katla erum að reyna að njóta lífsins fyrst að skólinn er búinn í bili og hægt er að gera eittthvað skemmtilegt. Við kíktum í Gust á fimmtudaginn og gáfum merunum okkar ormalyf. Við hittum líka Myrkva "okkar" svo við gáfum honum bara ormalyf í leiðinni. Merarnar eru svo að fara norður á mánudaginn og verða örugglega bara fegnar. Birta var mjög lengi með hóstapestina en Vaka er því miður með hana núna. Þessi pest verður því miður ekki umflúin. Svo þarf að fara að komast á hreint hvernig stóðhestamálin mín verða þetta sumarið en ég ætla að halda prímadonnunum þremur og bara spurning hver eða hverjir verða svona heppnir að fá að sinna þeim emoticon

Við Þórdís fórum í sund í dag með Lólý og krökkunum hennar. Þetta var æðislega gaman! Ég held að ég gerist sundmamman eftir þennan dag. Þórdís skemmti sér rosalega vel og ég ekki síður. Krakkarnir voru líka duglegir að leiða hana um og leika við hana. Veðrið var líka bara frábært sem skýrir brunatilfinninguna á bringunni og öxlunum.. ég er nú meiri albínóinn emoticon

Ég fékk sms frá Lilju í dag sem sagði að Deild væri fædd.. ja hérna.. Duld hennar Lilju var semsagt úrskurðuð tóm (ekki fylfull) af dýralækni fyrir 3 vikum sem var mjög spælandi því hún lét fyli í fyrra. Duld var því bara járnuð og brúkuð eins og hin hrossin. Svo var bara folald í stíunni hennar í morgun! ekki nóg með það heldur var þetta bara líka móvindótt hryssa emoticon  bara geggjað! Við Þórdís komum við til að sjá gripinn en Þórdís sofnaði akkúrat þegar við komum í hlað, enda þreytt eftir sundið. Hún fær því bara að sjá folaldið seinna. Hafþór var hjá Duld og Deild litlu þegar ég kom og mér sýndist að hann væri bara ansi stoltur enda var þetta örugglega vinsælasti viðkomustaðurinn í hesthúsahverfinu þennan daginn! Ekki alltaf sem það eru nýköstuð folöld til sýnis þar. Vá hvað ég hlakka til að fá folöld sjálf emoticon þó að ég fái yfirleitt bara brúna hesta!

Við erum að bíða færist til að komast norður, það bíða næg verkefni þar! Atli er á fullu að smíða og gera og græja í skúrnum. Rafstöðin fer vonandi í gagnið í sumar, svo verður klárað að skipta um gluggana, mála, girða, slá (með nýju sláttuvélinni sem er að koma í bæinn emoticon ) og allt hitt! Atli verður í fríi í 2 mánuði og ég hugsa að hann verði að mestu leyti fyrir norðan. Við Þórdíd komum svo þegar okkar frí byrjar.

Við erum bara sátt og sæl hér í Njarðvíkinni og allt gott að frétta. Ég verð vonandi duglegri að koma með fréttir núna í skólafríinu. Ég hef reyndar meira en nóg af verkefnum þrátt fyrir það en ég ætla að gera mitt besta emoticon






  • 1
Flettingar í dag: 204
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 303
Gestir í gær: 66
Samtals flettingar: 300883
Samtals gestir: 37228
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:47:49

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar