Mánaskál

Færslur: 2008 September

24.09.2008 00:23

Ótitlað

Jæja.. ég er alltaf á leiðinni að henda inn fullt af myndum. Um daginn virkaði það ekki.. svo nú er tilraun 2..

Birta mín er sjúklingur þessa dagana. Við Atli komum að henni svona slasaðri á vinstri framfæti þarsíðustu helgi í Mánaskál. Ekki er víst í hverju hún lenti en hún hefur greinilega skorið sig á einhverju. Birta átti far með Dódó og Össa í bæinn en hún átti bara að fara í létt trimm og svo í sölu. Hún fékk að fara í bæinn eftir að Egill dýri hreinsaði sárið og bjó um það.. en bara til að vera í sjúkragæslu. Ég held að mér sé bara ætlað að eiga hana fyrst svona fór emoticon Ekki það að mig langar sko alveg að eiga hana, hún er ferlega skemmtileg og fallegur hagaljómi en þar sem ég er ólétt þá veit ég að ég mun ekki hafa mikinn tíma í hestamennskuna á næstunni.

Atli er búinn að vera að hjálpa mér að skipta um á sárinu þar sem ég á erfitt með að beygja mig. Ég fór svo með hana til Björgvins dýralæknis í gær sem leist bara áglega á batann. Hún á samt annan tíma á morgun og þarf svo líklega að fara til hans aftur eftir það.. en við vonum bara það besta!

.. og fyrst ég er byrjuð og á hvort sem er að vera farin að sofa.. þá get ég alveg skellt inn nokkrum myndum í viðbót..


Bylting feit og fín




Myrkvi er líka með bumbu


Drungi er ekki lengur tryppalegur


Birta, Drungi og Bylting

Ég gleymdi greinilega að taka almennilega mynd af Birtu.. myndaði bara sárið. Ég á eitthvað af myndum af þeim frá því fyrr í sumar sem ég hendi inn fljótlega. Einnig eru væntanlegar myndir úr stóðréttunum, afmælinu hennar Karenar réttarhelgina á Klaustri, verslunarmannahelginni og fleira skemmtilegt.

23.09.2008 20:25

Uppfærsla væntanleg

Jæja ég er eitthvað að reyna að bæta mig í heimasíðuhaldinu. Ég er búin að gera nýjar síður fyrir Birtu og Vöku en þær eru fastar neðst í valmyndinni. Ég er viss um að það er músinni hans Atla að kenna.. kemur í ljós á morgun þegar ég reyni að breyta þessu í annari tölvu emoticon

Allavega þá eru komnar grunnupplýsingar um nýjustu hrossin í stóðinu mínu og fleiri myndir eru væntanlegar. Svo er aldrei að vita nema ég bæti inn meira efni þegar ég tek mér pásu frá lærdómnum.. það þarf nefnilega að gera það reglulega.

Ég hef frá helling að segja og ég á fullt af áður óbirtum myndum..svo hold tight hehe emoticon því meira sem ég ætla mér að læra.. því oftar og meira stelst ég til að gera eitthvað annað.

10.09.2008 14:37

Afmælið hennar Karenar og fleira

Jæja jæja.. hvað er nú að frétta??

Karen frænka varð 25 ára á laugardaginn síðasta.. til hamingju aftur! og amma og afi áttu brúðkaupsafmæli.. sem ég gleymdi reyndar eins og alltaf áður. Ég held að ég hafi í alvöru aldrei munað eftir því.. þó svo að ég viti vel að það sé á afmælisdaginn hennar Karenar  svona er ég nú bara skrítin.

Í tilefni afmælisins vorum við frænkunarnar búnar að plana ýmislegt. Fjörið byrjaði á fimmtudag en þá hélt Karen að hún væri bara að fara í bíó með Söru og Dagnýju en það endaði sko ekki þannig. Sara stóð sig eins og hetja í að tefja Karenu, þræddi búðir í Kringlunni og var að gera Karen vitlausa þar sem bíóið var að byrja og þær áttu eftir að borða og svo framvegis! Á meðan voru aðrar frænkur og makar að koma sér fyrir á Ruby Tuesday. Sara kom svo loks með Karen til okkar þegar allir voru komnir en svo birtist John vinur Karenar algjörlega óvænt líka! Hann er búsettur í Svíþjóð og Karenu grunaði ekki að hann væri að koma

Svo var auðvitað ekki annað hægt en að halda áfram að plata hana upp úr skónum fyrst hún gleypti við svona miklu og við sögðum henni að vera tilbúin í meira fjör kl. 11 á laugardagsmorgni. Ég var nú líka svo hugguleg að benda henni á að fara ekki mjög seint að sofa á föstudag til að vera vel stemmd með okkur á laugardegi. Nema hvað.. það stóð alltaf til að sækja hana á föstudegi og fara með hana út úr bænum. Þetta var nú bara svona gert til að vera alveg viss um að við værum að koma henni á óvart. Karen fékk þó rúmann klukkutíma til að pakka niður og svona áður en við birtumst.. nota bene á ógeðslega hallærislega skreyttum bílnum mínum.. með blöðrum og stjörnum og bleikum brúðarslaufum haha  Atli hafði ekki alveg húmor fyrir þessu greyjið og dauðsá eftir að hafa ekki farið austur með einhverjum öðrum.

Ferðinni var svo heitið austur fyrir fjall og lengra til því áfangastaðurinn var Hörgsland á Síðu, rétt austan við Kirkjubæjarklaustur. Þar vorum við búin að leigja 2 sumarhús fyrir mannskapinn.

Á leiðinni austur varð ég fyrir því  "ó"láni að keyra á tófuræfil sem steindrapst. Karen og John fengu vægt taugaáfall þegar Atli byrjaði að skera skottið af hræinu hehe.. svipurinn á þeim var æði  

Allir komust nú á áfangastað í heilu lagi og restinni af kvöldinu eyddum við í að horfa á gamlar myndir úr tölvunni.. það var nú dálítið hlegið  bara gaman að þessu.

Ég fór á fætur með Atla á laugardagmorgni og keyrði hann í réttirnar. Við hin fórum ekki í réttirnar fyrr en um ellefu eða svo enda var alveg nóg að fá bara smá fíling. Laugardagurinn var frekar rólegur bara en svo snérist dæmið upp í að græja sig fyrir réttarball og ná að grilla fyrir miðnætti hehe. Vá hvað það getur tekið langann tíma að kveikja upp og grilla þegar maður hefur bara kolagrill.. maður er greinilega allt of góðu vanur. Allavega þá fóru allir saddir á ball og ég held að flestir hafi skemmt sér mjög vel.

Atli minn "týndist".. allavega var hann hvernig að sjá lengi lengi.. en fann hann svo sofandi í Jónshúsi í réttarbuxunum og lopapeysunni.. meiri dúllan þessi drengur  svo dauðþreyttur.. en hann drapst auðvitað ekki þó hann hafi verið að drekka síðan snemma um morguninn.. nei nei.. höfum það á hreinu að hann sofnaði  meiri engillinn.

Ég fór auðvitað bara aftur á ballið enda fór ég bara í svona snögga "eftirleit" að drengnum mínum. Ég keyrði svo mannskapinn heim.. enda bara komið að mér held ég þar sem ég hef alltaf fengið far hjá einhverjum hingað til. Ég keyrði mitt fólk í 2 ferðum á Hörgsland, Svenna + dömuna hans og Siggu að hótelinu á Núpum og Sigga fúsa í Hörgsdal. Aðrir voru búnir að redda sér fari áður en ég kom aftur upp á Klaustur. Ég gisti svo bara í Jónshúsi hjá byttunni minni.

Sunnudagurinn var ósköp rólegur.. við ætluðum að fá okkur að borða á Systra Kaffi en það var bara lokað! ótrúlegt alveg hreint! Sjoppan varð því að duga. Við Ása og Jenný fórum svo aðeins í heimsókn í Hörgsdal og svo var bara brunað heim. Sara kom með okkur í bíl þar sem Karen, John, Dagný og Siggi urðu eftir og ætluðu ekki heim fyrr en á þriðjudag. Atli hafði vit á því að fara ekki með okkur enda var allt rætt milli himins og jarðar en við vorum þó mikið sneggri í bæinn heldur en austur.

Þessi vika hleypur frá mér eins og svo oft áður, allt í einu er kominn miðvikudagur. Svenni átti afmæli á mánudaginn og hann eldaði fínann mat handa okkur og fleirum um kvöldið. Til hamingju með afmælið Svenni okkar! Í gærkvöldi fórum við Atli upp í Hrísakot og tókum niður járnhliðið og græjuðum mublurnar sem við erum að fá frá ömmu og afa til að fara með í Mánaskál. Ferðinni er svo heitið norður á föstudag og vonandi ekki í bæinn aftur fyrr en á mánudag. Foreldar Atla ætla að koma með í fyrsta skipti svo ég vona að það viðri extra vel og svona svo þau njóti þess sem mest. Stóðréttirnar eru núna um helgina svo það verður eitthvað við að vera, auk þess stendur til að girða smá og græja meiri beit fyrir hrossin okkar.

Birta er jafnvel að koma í bæinn á sunnudaginn með Össa og Dódó þar sem ég hef ekkert við of mörg hross að gera svona ólétt og fín. Ég hef Vöku til að nota næsta sumar og hef engann tíma til að vera með hross á húsi í vetur svo ég hef ákveðið að selja Birtu. Mig langar auðvitað að eiga hana, mér finnst hún æði en hún verður ekkert æði ef það verður ekki haldið áfram með hana. Ég sé ekki fram á að hafa hross á húsi næstu 2 árin allavega, jafnvel næstu 4! Svo held ég að ég þurfi líka að spá í það hvað ég ætla að gera við Byltingu. Ég sé eiginlega eftir því núna að hafa ekki haldið henni undir hest í sumar þegar það leit út fyrir að ég væri ekkert að fara að ríða henni í vetur. Svona er þetta bara.. ég þarf eitthvað að spá í þessu.

Við Atli sóttum í gær barnaföt til Lólýar og Kidda, bæði stelpu og strákaföt þar sem við vitum ekki kynið og ætlum að láta það koma á óvart. Það er nú svolítið spennandi að vera kominn með fullt af dóti til sín og verður voða gaman að skoða í kassana að sjá hvað er til  Ég er nú ekki svona æst samt.. Lólý er að flytja og því var best fyrir hana að láta mig taka þetta strax því hún er að flytja í bráðabirgðahúsnæði á meðan þau eru að byggja og dótið yrði bara fyrir henni. Ég er nú samt alveg að skríða í 5 mánaða meðgöngu.. sem er bara meira en helmingurinn og bumban er í samræmi við það.. vá hvað þetta líður hratt!

Jæja meira blogg síðar..
  • 1
Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 303
Gestir í gær: 66
Samtals flettingar: 300768
Samtals gestir: 37197
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:26:41

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar