Mánaskál

Færslur: 2008 Maí

23.05.2008 09:03

Loksins nýtt blogg - Myndir

Jæja það hefur verið allt of mikið að gera hjá mér undanfarið.. og er reyndar enn. Ég ætla samt að henda inn myndum af Byltingu og Birtu síðan í vikunni. Svona á ég nú sætar dömur.





Bylting er orðin skröltfær hjá Lilju og hefur nóg af tölti og vilja. Ég held að við séum bara nokkuð sáttar með dömuna 




Ég er rétt farin að prufa Birtu og líst vel á byrjunina. Þó að Lilja sé grimm á svip þá leist henni bara vel á hana líka  

Ég vona að ég geti bloggað almennilega um helgina, ég er með mikið meira af myndum sem bíða birtingar bæði af þessum dömum og svo síðan við fórum austur á annan í hvítasunnu.

Mikið er ég ánægð með íslensku Eurovison farana.. áfram Ísland!

.. þangað til næst

11.05.2008 12:25

Hvítasunnudagur

Ég fór snemma á fætur.. á sunnudagi.. frekar ólíkt mér  Ég dreif mig í hesthúsið gaf í húsinu mínu og hengdi upp netin hjá Lilju fyrst ég "vakti" húsið. Ég fór eina bunu á Vöku í rokinu og merkilegt að ég hafi ekki fokið af á köflum. Voðalega er ég ánægð með þessa hryssu, hún stendur sko undir sínu. Tekur ekki feilspor í hávaða roki, fyrir vinnuvélum eða öðru sem á vegi manns verður.. meira að segja sáum við tófu.. hvíta tófu í Kópavoginum.. það hlítur að teljast spes svona innan bæjarmarka  Reyndar held ég að þessi tiltekna tófa sé ekki að fara neitt. Ég næ kannski mynd af henni seinna.

Ég lónseraði svo Birtu, bara svona til að sjá hana betur.




bara soldið sæt

Jæja þá er það vinnan næst.. í dag er mæðradagurinn og það þurfa allir að kaupa blóm.. alltaf sama fjölbreytnin í þessu hjá fólki

þangað til næst..


10.05.2008 21:52

Birta komin í bæinn - fyrstu myndir

Dagurinn byrjaði á því að ég sótti Siggu, Særós, Hafþór og Táslu rétt fyrir kl. 10 í morgun.. reyndar byrjaði ég á að taka til í bílnum og ryksuga hann.. en fyrir flesta er það svosum ekki afrek. Ég keyrði Særós og Hafþór í fimleika þar sem Lilja var á næturvakt og Sigga er vön að fara með börnin í strætó í fimleikana sem tekur fáranlega langann tíma á milli hverfa í Kópavogi. Tásla má heldur ekki fara í strætó svo það var lang gáfulegast að ég myndi bara sækja hópinn og koma öllum á sinn stað fyrst ég var á leiðinni í hesthúsið hvor sem var. 

Við Sigga drifum okkur svo kirkjugarðshringinn á gæðingunum okkar, ég á Vöku og Sigga á Sjón sinni. Ég lónseraði svo Myrkva sem verður dálítið útundan þessa dagana. Ég hefði farið á bak nema að hnakkurinn minn er ekki kominn til baka úr skoðuninni og ég nennti ekki að gera mér aðra ferð til að sækja hnakk til Lilju.

Birta, nýja hryssan mín kom í bæinn seinnipartinn. Ég gat sjálf skroppið og tekið á móti henni en stoppaði ekkert því ég þurfti að flýta mér aftur í vinnuna. Hryssan er bara sæt að sjá en ég er nú bara búin að fá svona augnabliksskoðun á hana. Ég kíkti við hjá henni eftir vinnu í kvöld til að ath hvort það væri ekki allt með sóma. Ég setti hana út augnablik til að fá að sjá hana almennilega og auðvitað tók ég myndir. María kom akkúrat á sama tíma til að gefa og Birta vildi auðvitað bara fara beint inn.. ég leyfði henni það bara þar sem ég hef nægann tíma til að skoða hana seinna.







Sæt lítil blesa

10.05.2008 00:29

Ótitlað

Ég var í fríi í vinnunni í dag þar sem ég tók daginn frá til að vera til staðar fyrir Atla og lokaverkefnið. Þetta fór allt saman vel og við Atli fórum með verkefnið í útprentun og innbindingu. Ég er bara voðalega stolt af drengnum mínum, búinn með lokaverkefnið og vonandi að fara að útskrifast úr HR  .. svo er bara að sjá hvað ég á eftir að standa mig vel á næstu árum  ég á þetta víst eftir.

Ég fór ekkert í hesthúsið í dag og var svo að vinna í blómabúðinni í kvöld. Eins og áður hefur komið fram þá er ég að vinna núna um þessa helgi og næstu og þá er ég hætt og ætla að njóta sumarsins! Nema hvað að ég var að frétta að sú sem hefur verið ráðin í vinnu lætur ekki ná í sig og mér skilst að það sé búið að reyna stanslaust í viku! Hún á að vinna næstu helgi og hefur enn ekki fengið neina aðlögun.. og svara ekki í síma.. furðulegt. Eitthvað segir mér að þessi manneskja ætli ekki að vinna þarna og láti þess vegna ekki ná í sig! .. en kemur allt í ljós.

Við Lilja riðum út í blíðunni á fimmtudaginn.. veðrið var geggjað.. og hvað varð svo um það.. núna er rigning og frekar kalt! Ég var hálf dauð í gær í gegningunum þar sem hitinn var svo mikill og ég mætti auðvitað í hesthúsinu í vinnufötunum. Í gær var ég t.d. í kjól og ekki ætlaði ég að ríða út og moka í kjól svo ég dríf mig auðvitað úr honum en var ekki með bol með mér svo það var bara farið beint í flísjakka og ég var að kafna! Það var sko ekkert jakkaveður og ég neyddist til að moka út í jakka í öllum þessum hita!! vá hvað ég hefði geta dáið þarna! En ég komst heim í heilu lagi og ekki dáin úr ofþurrki  Ég held að ég passi mig að eiga auka bol uppfrá héðan í frá.

Ég er óttalega ein þessa helgina Atli fór á Klaustur og ég vona að hann skemmti sér vel þar. Mamma og pabbi fóru í fyrstu húsbílaferð sumarsins. Karen og Dagný fóru á Ísafjörð. Ég held að allavega Ása sé í sumarbústað ef ekki bara Jenný líka. Ekki það að ég hef svosum ekki mikinn tíma aflögu á þessum blessuðu vinnuhelgum en kommon.. hundurinn er ekki einu sinni heima!

Á svona stundum er ágætt að t.d. læra (sem ég er búin að gera) og skipuleggja myndirnar sínar.. sem ég er að gera..

Hér eru t.d. myndir af Vöku í reið sem ég tók um daginn. Ég á nú eftir að fá betri myndir af dömunni og að sjálfsögðu ætla ég þá að vera knapinn





Ég fer svo í hesthúsið í fyrramálið og vonandi kemur Birta í bæinn  Ég hef reyndar ekkert heyrt ennþá en ég held samt í vonina.

07.05.2008 23:30

Ég var á námskeiði í dag og slapp svo ótrúlega vel frá vinnunni, var komin snemma í hesthúsið og náði að fara með hnakkinn minn í Lífland.

Ein skondin saga.. Ég er ein af þessum "skrítnu" manneskjum sem bara geta ekki setið fallega á hestbaki.. alltaf er verið að skamma mig fyrir að vera skökk og ég skekki hrossin mín líka á þessu veseni. Hrossin mín hafa t.d. öll farið á vinstra stökk því ég virðist stíga meira í vinstra ístaðið. Mér hefur illa gengið að losa mig við þennan ávana. Ég hef reyndar alltaf sagt að ég hljóti að vera með annan fótinn lengri en hinn  Um daginn var ég eitthvað að væflast með að það væri örugglega ójafnt í ístöðunum hjá mér en komst svo að þeirri niðurstöðu að það væri jafn langt í þeim og ég væri bara að ímynda mér þetta. Alltaf skekki ég mig í reið og er alltaf að laga mig í hnakknum. Ég bað Lilju að fara aðeins á Vöku um daginn til að ég gæti séð hana undir og Lilja stökk á bak og í hnakkinn minn.. nema hvað um leið og hún settist í hnakkinn þá tók hún eftir og ég líka að það er missítt í ístöðunum!! Aftur skoða ég ístaðsólarnar og tel götin og kemst að því að ístaðsólarnar eru mislagar og ég þurfi að kaupa nýjar.. samt hélt ég að þessar úr gerviefnunum myndu ekki teygjast og aflagast eins og leðurólarnar gera. Ég tók svo ólarnar af hnakknum og ætlaði að ath hvort ég ætti ekki aðrar til skiptana og ég bar þær saman.. og þær eru bara jafn langar! og ístöðin jafn stór og allt eins og það á að vera!! .. sem þýðir að hnakkurinn minn er gallaður og það hefur verið mitt vandamál! Ístaðsupphengin eru greinilega mishá eða bara að virkið í hnakknum er virkilega skakkt.  Jáhérna.. heppin ég. Ég fór allavega með hnakkinn upp í Lífland og hann var sendur til söðlasmiðs.. svo vonandi fæ ég hnakkinn í fínu standi til baka og get hætt að sitja eins og gúrka  Ég er svo kannski bara með 2 jafn stuttar lappir

Málið með hnakkinn er að ég keypti mér hnakk fyrir rúmum 2 árum, svo var ég auðvitað ekki með hesta á húsi síðasta vetur og er tiltölulega nýbyrjuð að ríða út núna.  OG aulinn ég er bara að kveikja á perunni núna!

Ég er búin að heyra af Birtu "minni".. hehe fyndið.. Lilja á sína Birtu og því finnst mér skrítið að vera að fá Birtu "mína" í bæinn  Samkvæmt nýjustu áætlun kemur daman í bæinn á laugardaginn.. ekta fyrir mig.. ég er auðvitað að vinna! Svo er bara spurning hvenær á laugardaginn skvísan kemur en ólíklegt verður að teljast að ég geti tekið á móti henni sjálf. En það koma þá allavega myndir á sunnudag  

Við Lilja fórum eina ferð í dag og Myrkvi karlinn fékk að hlaupa með. Hann stóð sig eins og hetja.. alveg eins og Bylting um daginn. Teymist eins og hundur. Þetta var nú pínu erfitt fyrir hann en það var auðvitað passað upp á að ofgera honum ekki, hann er svo mikill sláni.

Á morgun á ég svo gegningarnar og ég geri ráð fyrir að fara allavega eina ferð í hnakknum. Svo er það bara að reyna að koma Atla í gegn um lokaverkefnið á lokasprettinum.. sem á örugglega eftir að ganga hjá drengnum  .. vinnuhelgi hjá mér og Atli fer austur.

Eitt að lokum.. Karen frænka (www.123.is/ior) er komin með dagsetninu á aðgerðina sína.. það eru 12 dagar í þetta.. semsagt 19. maí. Hún er algjör hetja og hefur staðið sig svo vel. Ég hlakka til að fylgjast með henni ganga í gegn um þetta ferli.. og knús til þín Karen mín 

06.05.2008 21:37

Myndir af Vöku

Jæja þá er enn ein vikan á góðri leið og verður búin áður en maður veit af.

Hér koma myndir af Vöku "minni" sem ég er að kaupa. Hún er svo fín með ljósa faxið sitt





Við Lilja fórum saman eina bunu í kvöld og auðvitað fór ég á sparimerinni "minni" henni Vöku. Lilja er svo auðvitað að temja Byltingu og það gengur bara ok. Hún er búin að fara eina götu á henni og hún komst allavega heim í heilu lagi.. það dugar mér í bili  Reyndar þarf ég að panta tíma fyrir hana hjá Björgvini dýra í munnskoðun þar sem okkur grunar að eitthvað sé að angra hana.


Birta "mín" þessi leirljósa blesótta er ekki komin suður en ég vona að ég fari að frétta eitthvað af hennar ferðum.


Ég var á námskeiði í vinnunni í dag og verð líka meiri hlutann af morgundeginum. Svo er ég á hraðlestrarnámskeiði á miðvikudagskvöldum en svo er bara kominn fimmtudagur og á hesthúsið. Ég er svo að vinna næstu 2 helgar en þá er ég líka hætt í blómabúðinni og farin að njóta sumarsins

Atli er á fullu að reyna að klára skólann sinn. Hann er að vinna að lokaverkefninu sínu en það hefur veri svo mikið að gera í vinnunni hjá honum svo hann er kannski ekki kominn þangað sem hann hefði viljað. Ég reyni að hjálpa eins og ég get.. en hvað veit ég um rafmagns"eitthvað" hehe Ég held að ég haldi mig bara við heimildaskrána

Ég sit núna á verkstæðinu hjá Atla en við þurftum aðeins að skjótast í vinnuna til hans. Ég er bara að blogga á meðan hann bjargar einhverri flugvél. Ég fór inn í flugvélaskemmuna áðan.. vá hvað þetta er stórt! Ein flugvél, eins stór og hún er rúmast bara mikið meira en vel þarna inni. Það er svolítið spes líka að sjá inní flugvél sem er búið að taka í sundur í frumeindir.. og svo á maður að treysta einhverjum gaurum til að muna að tengja alla víra aftur hehe.. úff.. ég held að ég taki ekki að mér að fara í fyrstu ferð

Ég er með fleiri myndir sem ég á eftir að skella hér inn, t.d. myndir af vöku í reið. Svo á ég líka nýjar myndir af Byltingu.

Jæja þetta er gott í bili.. þangað til næst..

03.05.2008 12:26

Kominn tími á blogg.. mikið að gerast!

Ég er ekki alveg að standa mig í bloggheimum. Ég hef haft svo mikið að gera.. aðallega þó það sem ég vil helst gera. Ég er búin að vera dugleg í hesthúsinu undanfarið en ég þarf að fara að gefa mínum eigin hrossum smá tíma! Ég er farin að ríða svolítið út með Lilju og ríð þá auðvitað bara þjálfunarhrossunum hennar. Ég held að ég fari að taka prósentur hehe.

Hesta málin standa svona.. úfff hestastúss! Lilja er með hryssu í þjálfun sem heitir Vaka og er rauðglófext, tvístjörnótt dóttir Svarts frá Unalæk. Hún sagði við mig í vetur að hún væri búin að finna hest fyrir mig, þessi hryssa væri akkúrat það sem ég væri búin að leita að! Ég var auðvitað ekkert á leiðinni að kaupa hesta núna þá svo ég spáði ekkert meira í það. En mig dreymir samt um að eiga gott reiðhross til að grípa í í sveitinni í sumar. Svo fór ég á bak með Lilju um daginn og hrossið sem hún sótti fyrir mig var rauðglófext hryssa.. auðvitað! Ég varð svo auðvitað voðalega hrifin af henni. Þetta var bara akkúrat hryssan sem Lilja var viss um að hentaði mér og viti menn mér finnst hún æði. Lilja þekkir mig sko eins og handarbakið á sér! og nema hvað.. hún er til sölu.. og mig langar að kaupa hana! Hún kostar reynda ansi marga peninga svo þetta er flókið. En hvað á maður að gera.. ég leitaði í marga mánuði að reiðhesti fyrir 2 árum og fann ekkert og er því enn hestlaus í dag. Ég er nú enn að hugsa málið.. en samt er ég búin að selja fellihýsið mitt og velja mér "horn" til að stunda viðskipti á hehe.. en samt er ég bara að hugsa málið. Mig langar nú ansi ansi mikið í þessa hryssu!

og næsta mál á dagskrá..  ég er búin að láta Ótta minn í hestakaup. Ég á von á 5. vetra hryssu í staðinn, leirljós blesótt Háfetadóttir frá Hvolsvelli. Hún heitir Birta og er frá Blönduósi, ræktandi er Tryggvi Björnsson á Blönduósi. Hún er tamin og komin langt á leið í gangsetningu. Ég á eftir að fá mynd af dömunni og þá skelli ég henni örugglega hér inn. Mig vantar svo eitthvað reiðhross til að hafa fyrir austan í sumar. Ég sé það alveg í hyllingum að geta riðið út á Klaustri á meðan Atli gerir við bílinn eða eitthvað.. hahe.. sérstaklega ef það væri minn bíll   Ég er voða spennt að fá gripinn í hendurnar. Þessi skipi voru í athugun þegar að Vaka hreinlega dettur í fangið á mér.. og hvað svo?? Verð ég kannski allt í einu komin með 4 hross á hús.. ég sem ætlaði ekkert að vera með inni? Svona er maður nú ruglaður! Ég hugsa að ég þurfi eitthvað að rýmka til þegar Birta "mín" kemur í bæinn og ætli það verði ekki Myrkvi sem verður sendur í sveitina til Gumma og Sjafnar. Ég þarf allavega að gera einhverjar ráðstafanir áður en hryssan birtist á tröppunum hjá mér 

Ég fór í afmæli til Rakelar á miðvikudaginn, skvísan varð 25 ára.. til hamingju með það Rakel! Ekkert smá góður afmælisdagur þessi 30. apríl.. það er alltaf frí daginn eftir  Það var heljarinnar húllum hæ í afmælinu og ég endaði á að fara með í bæinn. Ég fór nú reyndar fyrst heim enda átti að nota frídaginn vel.

Í kvöld stendur til að fara á stórsýningu hestamanna í Víðidalnum og á bjórkvöld á eftir. Það eru ár og aldir síðan ég náði Lilju á "djamm" og ég ætla sko að nýta það vel.

Lilja er að ríða Byltingu fyrir mig, daman er auðvitað ákveðin eins og hún á ættir til  Hún fór upp á endann í gær enda hafa svona prinsessur ekki endalaus úrræði ef það á að neyða þær til að gera annað en þær vilja. Annars held ég að þetta sé allt á áætlun með hana og ég veit að Lilja gefur ekki tommu eftir.

Ég er búin að fara á bak Myrkva en vantar einhvern til að teyma undir mér. Ég vil reyna að nota tímann í eitthvað gáfulegt fyrst hann er á húsi en minn tími fer minnkandi... sérstaklega ef ég verð allt í einu komin með 4 hross á hús haha.. ég er ótrúleg.

Ég er búin að fara á hundavaði yfir líðandi stund þar sem ég er að leysa af í þjónustuveri bankans.. vá hvað það hringja margir inn! En svona er þetta.. ég kom þá allavega einhverju frá mér.

  • 1
Flettingar í dag: 89
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 303
Gestir í gær: 66
Samtals flettingar: 300768
Samtals gestir: 37197
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:26:41

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar