Mánaskál |
|
14.01.2015 21:14Nýtt árNýtt ár er mætt og nóg að gera í sveitinni. Haustið hefur liðið ótrúlega hratt og mér finnst örstutt síðan kindurnar fóru upp á Sturluhól. Atli hefur verið mjög duglegur að vinna á Sturluhóli og aðstaðan í hlöðunni fyrir kindurnar er orðin ansi góð. Við erum með eina stóra gjafagrind fyrir allar ærnar en skiptum þeim upp í tvo hópa þar sem gimbrarnar fá að vera öðrum megin og eldri ærnar á móti. Það er mjög rúmt á báðum hópum og þær hafa það fínt. Hrútarnir eru svo með stóra kró í hesthúsinu. Við fengum eina litla óvænta gimbur í heim haust sem ekki tók að lóga og svo settum við á eina sem var heldur smá til að setja í hrút svo þær tvær hafa haft sína sér stíu líka í hesthúsinu þar sem þær fá nægt fóður og fóðurbæti. Atli er búinn að koma rafmagninu í stand í útihúsinu en það var algjör skortur á því. Núna er nóg af inni og úti ljósum og meira að segja næturlýsing fyrir skeppnur og menn. Atli er svo nýbúinn að ganga frá vatninu í hesthúsinu svo nú eru komar vatnsskálar í báðar krær í hlöðunni og í allar stíur í hesthúsinu sem er mikill munur. Í haust tók ég að mér nokkrar hryssur í fóðrun sem eru á leið í útflutning til Þýskalands. Þær eru á Sturluhóli ásamt mínum hrossum og hafa það gott þar á gjöf. Reyndar fór svo að ein af þessum hryssum hefur verið seld til ábúandans á Sturluhóli svo hún fer ekki út. Nótt mín fór á hundasýningu í haust á meðan ég sat heima með lungnabólgu og sárt ennið. Ég er svo heppin að hafa góða að því ég gat fundið far fyrir prinsessuna og fengið samastað fyrir hana í Reykjavík, bað og blástur, sýnanda og allan pakkann! ![]() Heimsenda Sumar Nótt Þriðja besta tík tegundar, meistaraefni og vara alþjóðlegt meistarastig ![]() Þó að Nóttin sé fín á hundasýningu þá er þessi drottning bara flottust heima í sveitinni. Við samstilltum allar ærnar okkar með svömpum til að stýra sauðburðinum og vonandi fá fullt af fínum gimbrum undan sæðisstöðvahrútum. Við ætlum að halda áfram að fjölga fénu svo við verðum endilega að fá mikið af góðum gimbrum í ásetning. Ég skellti mér svo á námskeið í sauðfjársæðingum í haust og það var mjög skemmtilegt, ekki síst að fá að koma á sauðfjárræktarbúið að Hesti í Borgarfirði og sjá aðstöðuna þar. ![]() ![]() Við sæddum svo 15-18. desember og bíðum spennt eftir fósturvísatalningu! Þetta var fyrsta sæðingin okkar og maður er reynslunni ríkari fyrir næsta ár. Við fylgdumst með ánum þegar kominn var tími á næsta gangmál og því miður gengu of margar upp, en endanleg niðurstaða er ekki ljós ennþá. Við krossum allavega putta um að frjósemin verði fín og svo óska ég auðvitað eftir extra háu hlutfalli af gimbrum svo ég eigi nóg í ásetning í haust. Ég er allavega þakklát fyrir það að ég á nokkrar sparikindur sem ég ef ekki orðið vör við að hafi beitt upp svo ég krossa putta! ![]() Jól og áramót voru ósköp yndisleg en við vorum heima í þetta skiptið og nutum þess að hafa allt afslappað og rólegt. Hin þýska Merle sem kom til okkar í október var með okkur yfir jólin og átti góðar stundir með okkur. Jólin okkar eru töluvert frábrugðin hennar hefðum en ég held að hún hafi haft gaman af þessu öllu saman. Pakkaflóðið klikkaði auðvitað ekki og fengu stelpurnar margar og góðar gjafir sem við erum þakklát fyrir. Spenningurinn var auðvitað mikill en stelpurnar stóðu sig svo vel í biðinni. ![]() Jólaljósin á aðventunni voru dálítið spennandi ![]() Þórdís Katla tilbúin með bjúgu fyrir bjúgnakræki. Ketkrókur fékk líka hangilæri! ![]() ![]() ![]() Milli jóla og nýárs voru svo hross tekin á hús. Vaka og Kóngur voru tekin inn ásamt 5 hrossum frá Gísla og Hafdísi á Sturluhóli. Ég og Merle eru búnar að fara nokkrar ferðir á bak og það er voða ljúft að vera komin með hross á hús.. en þó verður að viðurkennast að það vantar dálítið upp á tímann í þetta. Ég skráði mig nú samt á reiðnámskeið á Blönduósi í vetur og ætla að vera þar með Kóng í knapamerkjum. ![]() Merle er vön að ríða pólóhestum og vill bara ríða berbakt, ég kýs hnakkinn ![]() ![]() Ég hef nú alltaf verið dýrasjúk og fæ reglulega einhverjar flugur í hausinn. Sú nýjasta eru kanínur. Ég er búin að kaupa tvær holdakanínukerlingar og ætla að sjá hvernig mér líst á að eiga kanínur. Ég hef nóg af plássi og eins og er þá eru þessar tvær í allaveg 10 fm stíu í hesthúsinu. Ég er reyndar nú þegar búin að panta eina kanínu í viðbót og lofa að taka að mér eina kanínu í heimilisleit en það er nóg pláss enn ![]() ![]() ![]() ![]() ![]() ![]() Skrifað af Kolla Flettingar í dag: 151 Gestir í dag: 6 Flettingar í gær: 489 Gestir í gær: 24 Samtals flettingar: 377704 Samtals gestir: 43315 Tölur uppfærðar: 4.4.2025 01:01:16 |
Eldra efni
Tenglar
|
© 2025 123.is | Nýskrá 123.is síðu | Stjórnkerfi 123.is