Sumarfríið hleypur áfram, sem betur fer Atla vegna. Það styttist í að hann komi heim en hann er væntanlegur 13. ágúst og við Þórdís Katla getum ekki beðið. Dagarnir hér í sveitinni hafa verið alveg frábærir en það vantar samt pabbann í hópinn til að fullkomna fríið! Við erum búnar að vera heppnar með veður en það hefur ekki rignt neitt að viti síðan við komum norður og flestir dagar hafa verið mjög sólríkir. Þórdís er orðin útitekin og ég er sko meira að segja farin að líta út eins og meðal jón á miðjum vetri hehe. Ég er reyndar búin að fara mjög varlega í sólinni og nota sólarvörn óspart þar sem ég byrjaði sumarfríið á að fá sólarexem sem er ekki skemmtilegt. Mér hefur nú tekist að halda því niðri svo ég get ekkert kvartað.





Ekki eru allar fréttir góðar.. Hún Skella mín er farin til forfeðranna. Hún var svæfð 27/7 þá tæplega 7 ára. Set inn nokkrar myndir af henni en ég er með fáar núna við hendina. Askan hennar verður svo jörðuð á Mánaskál eða henni dreift.




pínulítil og rosa sæt!!
Mamma og pabbi eru búin að vera með okkur mestallan tímann sem hefur verið frábært, bæði félagsskapur og svo ég hef geta gert meira en ella ef ég hefði verið alein með Þórdísi í sveitinni. Pabbi er svo búinn að vera mjög duglegur að hjálpa okkur og var eiginlega í hörku vinnu hér fyrstu dagana. Hann fékk það verkefni að sjá um heyskapinn og svo keyrði hann rúllurnar heim fyrir mig líka. Dagana fyrir heyskapinn var hann að dytta að vélunum og koma öllu í stand fyrir vertíðina svo þetta tók nokkra daga fyrir karlinn. Pabbi er líka búinn að gera við GMC fyrir okkur Atla svo nú er hægt að fara með gripinn í skoðun í næstu viku. Pabbi fór líka með litla Benz í skoðun í Rvk í síðustu viku fyrir okkur.

Einar á Neðri Mýrum er góður granni og hann kom og rúllaði fyrir okkur 25. júlí og fengum við 23 rúllur í þetta skiptið, heldur minna en ég hefði kosið en ætli ég splæsi ekki í einhvern áburð á næsta ári til að lífga upp á sprettuna. Ég á nokkrar rúllur frá því í fyrra og ætti því að eiga nóg ofan í "stóðið" mitt. Pabbi rakaði saman suðurtúnið en það sprakk á fínu múgavélinni hans pabba og því var brugðið á það ráð að fá lánað dekk á Kúfskerpi. Ekki vildi betur til en að það passaði bara ekki og Einar bjargaði þá málunum og fór og sótti sína vél og var sko mikið fljótari að raka!


Ég er að reyna að vera dugleg í dundinu svo að Atli þurfi ekki að gera allt þegar hann kemur heim, það bíða hans alveg næg verkefni nú þegar. Ég var að klára að bera á skjólveggina á pallinum og er líka búin að bera á tréverkið við gluggana. Ég á eftir að bera á eitthvað aðeins í viðbót og klára það vonandi á næstu dögum. Ég er aldrei með bara eitt verkefni í gangi en núna stendur til að trukka af það sem komið er af stað. Ég er að undirbúa herbergið hans Agga undir málningu og verður enginn smá munur að sjá það herbergi hvítt en ekki bleikt eins og það hefur verið í tugi ára! Ég er líka byrjuð að hreinsa málningu af stiganum og ætla að reyna að gera hann upp og lakka hann. Ef þetta gengur vel þá ætti stiginn að verða voða gamaldags-huggulegur. Ég er mikið búin að velta fyrir mér hvernig ég ætti að loka gerðinu mínu og tók ákvörðun í vor að loka því með neti allavega til að byrja með. Þá komast allavega ekki lítil folöld út úr því næsta vor þegar maður fer að skoða dýrgripina sína J
Ég dreif mig í að klára réttina í gær þar sem ég á von á dýralækni hér eftir helgi til að sónarskoða hryssurnar J ég er bæði spennt og kvíðin fyrir þessu því ég er búin að vera svo smeik um að hryssurnar séu ekki að fyljast. Núna er ég farin að róast því mér finnst eins og þær séu einhverjar orðnar fylfullar því þær ættu að vera byrjaðar í hestalátum aftur. Bylting gekk bara einu sinni að ég held og ég tel að hún ætti klárlega að vera búin að ganga aftur svo ég giska á að hún sé fylfull, Birta var í hestalátum þegar Fengur kom en fór svo aftur í hestalæti tveimur vikum seinna en ég hef ekki orðið vör við hestalæti í henni síðan þá (og það fer sko ekki á milli mála með þessa dömu) svo ég vona að hún sé fengin, Vaka var í hestalátum þegar Fengur kom en líklega alveg í bláendann á gangmálinu, hún var svo að ganga aftur aðeins seinna en Birta nú síðast svo dýri ætti að sjá fyl í sónar eftir helgi ef hún hefur fengið. Annars var Fengur eitthvað að sýna henni áhuga í gær en ég vona að það þýði ekki að hún sé að byrja aftur í hestalátum heldur frekar að honum finnist hann hafa orðið of lítið að gera J Hugsýn er dálítið tvísýn þykir mér, ég er hrædd um að hún hafi ekkert gengið og sé því tóm. Ef það reynist rétt hjá mér þá getur dýralæknirinn vonandi komið henni af stað svo hún nái einu gangmáli áður en Fengur fer til baka. Hestapestin er hér á þessum bæ ennþá! Hugsýn var að hósta þónokkuð hér um daginn en ég hef ekki heyrt í henni í einhverja daga. Annars held ég að öll hrossin séu búin að hósta einu sinni eða tvisvar svo ég heyri til síðan Fengur kom. Hvenær ætlar þetta eiginlega að vera búið! Ég heyri líka hrossin á dalnum hósta í þessi fáu skipti sem ég hef orðið vör við hross. Ég hef varla séð hross í tvær vikur eða þangað til stóru stóði var hleypt á dalinn, ég giska á að það séu hryssur frá Enni. Ég taldi lauslega milli 60-70 hryssur með folöldum og það er ótrúlega mikill tætingur á þessu stóði. Ég vona að þau séu að róast en þau hafa oftar en einu sinni komið á ferðinni út dalinn eins og þau væru með dauðann á hælunum og enginn elti! .. hrossunum mínum til mikillar "gleði" en þau uppveðrast að sjálfsöðgu við svona hamagang.




Litla bleikálótta Hugsýnardóttirin stækkar og dafnar en daman er ekkert smá fyndin. Hún er búin að fá mikinn umgang í sumar þar sem hrossin eru nánast hér uppi á hlaði og þurft að hlusta á barnaskríki og fleira skemmtilegt. Hundurinn er eitthvað á vappinu og svo bílar og allt þetta sem fylgir okkur.. en ef ég fer og gef hrossunum brauð þá koma þau auðvitað öll askvaðandi og hún með.. en ef ég hendi brauði til hennar þá "deyr" hún.. og það í hvert skipti! Hehe bara fyndin þessi elska. Ég var eiginlega í kasti um daginn þegar ég var að skutla til hennar brauðmolum og þeir voru allir stórhættulegir! Btw.. ég þarf að fara að fá nafn á dýrið! Annars uppnefni ég hana hehe.

Hrossin líta mjög vel út og ég er ánægð með þau. Birta og Vaka voru báðar of grannar síðasta vetur og voru búnar að braggast heilmikið á þessum mánuði sem þær voru í Víðinesi áður en ég kom með þær norður. Í dag eru þær feitar! Við erum sko að tala um bumbur! Birta fer að ná sömu stærð og síðasta sumar! Hugsýn er búin að bæta á sig síðan hún kom norður og heldur vonandi áfram að safna á síðurnar fyrir veturinn. Bylting lítur líka mjög vel út en hún kom líka vel undan vetri. Fengur er búinn að bæta á sig líka en það er bara gott mál. Hann var vel trimmaður og flottur þegar hann kom og er aðeins búinn að fá ístru. Hann hefur það ógurlega gott þessa dagana og liggur voða mikið og sólar sig enda fá verkefnin þessa síðustu daga.

"Stóðið"

Bumbur!
Við fórum að veiða í Svínavatni í dag á bátnum. Það veiddust nokkrir tittir og þá meina ég í alvöru tittir! Þetta var ágætis skemmtun og skemmtilegur dagur til útivistar. Við fórum á húsbílnum og vagninn hennar Þórdísar var tekinn með svo við höfum allt til alls. Þórdís fékk ekki að veiða sjálf í þessari ferð en klárlega á næsta ári. Við vorum nefnilega bara að veiða úti á bátnum og hún er kannski of ung í svoleiðis ferðalag.


Særós Ásta dóttir hennar Lilju ætlar að koma í næstu viku og vera barnapía þangað til við förum heim. Ég veit að ég þarf engar áhyggjur að hafa af henni, hún er algjör sveitastelpa og við eigum bara eftir að hafa það gott hérna saman. Hún er líka búin að bíða eftir að fá að koma síðan síðasta sumar svo það er eins gott að ég standi undir væntingum ! Best að byrja að plana sundferðir og fleira skemmtilegt svo ég fái hana til mín á hverju sumri J
Elsku pabbi minn.. sakna þín svoooo og hlakka mikið til að koma á flugvöllinn að sækja þig og leika svo við þig fullt J Knúúuuss og kossar! Þórdís Katla sem er 18 mánaða eftir 2 daga!


með fínt hár..

.. mamma í alvöru hættu að taka myndir!!
Bestu kveðjur úr sveitinni
Fleiri myndir í myndaalbuminu Sumarfrí 2010!!