Við skelltum okkur aðra ferð í Mánaskál, við vorum þar síðustu helgi og fram á þriðjudag. Atli var duglegur eins og alltaf og í þessari ferð voru t.d. gluggarnir á skemmunni pússaðir og málaðir og þakið á skemmunni fékk fyrstu umferð. Það er sko allt annað að sjá heim á bæ þegar þökin eru orðin svona "sveitabæjarauð".
allt annað að horfa heim á bæ!
Hrossin hafa það fínt, koma heim á hlað til að þiggja brauð og klapp. Mér leiðist sko ekki að hafa þau svona nálægt mér og ég hlakka rosalega til sumarfrísins! Það stendur sko mikið til, ég ætla mér að gera svo mikið.. vona bara að ég fái tímann í það. Hrossin eru ofarlega á listanum og ætla ég að reyna að vera með allt á járnum og temja smá í rólegheitunum. Kannski förum við bara norður í júní og verðum allavega út júlí Þvílíkur draumur!
Það eru miklar hrossapælingar á þessum bæ. Ég er búin að fá þá flugu í hausinn að halda öllum hryssunum mínum þetta árið því ég verð ekki með neitt á húsi í vetur. Það þýðir auðvitað að ég verði hestlaus næsta sumar en það er örugglega þess virði. Ég myndi brúka þær í sumarfríinu þetta árið áður en þær fengju leyfi til að fara á karlafar. Ég sé alveg hvernig ég yrði næsta vor.. myndi ekki sofa þegar hryssurnar væru komnar á tíma!
Ég verð líka alltaf vitlaus þegar ég sé hross sem mig langar í. Í þetta skiptið rak ég augun í systur Birtu minnar undan Gamm frá Steinnesi. Þetta er virkilega sæt klárhryssa sem ég væri sko meira en til í að bæta í stóðið mitt.. en hún kostar kannski dálítið marga peninga Ég ætti kannski bara sjálf að halda Birtu undir Gamm! Svo veit ég reyndar um aðra systur hennar á söluskrá en sú er ótamin, örugglega mjög efnileg og spennandi samt. Allavega flott á myndum.
Það er allt í einu eins og við Atli eigum fullt af fé.. allavega lítur út fyrir það ef það er horft heim á bæ til okkar þessa dagana. Kindurnar sækja voða mikið í okkur og virðast ekki fá straum þegar þær fara inn í öll hólf hjá okkur. Reyndar er alveg greinilegt að þær kunna þetta því þær setja undir sig hausinn og hlaupa þegar þær ætla í gegn! Svo var ég búin að taka eftir því líka að þær stoppa hjá hrossunum og fá sér salt og vítamín. Ætli þetta verði ekki fastur áfangastaður hjá þeim í sumar á rúntinum. Ég held að við þurfum bara að eignast kindur líka, það þarf hvort sem er að gefa hrossunum.. er ekki bara hægt að gefa fé út rúllur líka og leyfa þeim að ganga inn og út úr skemmunni? Bara hugmynd.. ég veit allavega að það væri mjög flott að eiga fulla kistu af lambakjöti núna þegar grilltímabilið er að renna í garð!
Það styttist í að mamma og pabbi hefji sitt sumarfrí. Þau verða fyrir norðan að mestu leyti og pabbi mun sjálfsagt dunda eitthvað fyrir okkur. Ég er búin að leggja inn pöntun fyrir hestarétt/gerði sem vonandi verður fyrsta mál á dagskrá svo ég geti hafist handa með hrossin mín fljótlega eftir að ég kem norður. Ég ætla að panta járningu um leið og ég veit hvenær við förum norður til að slóra nú ekkert.
Mig langar voða mikið að hafa einn barnahest í sumar, bara svona rétt til að leyfa krökkunum að fara á bak þegar þau koma í heimsókn. Birta og Kári koma til Íslands í júní og ætla að koma í heimsókn norður til okkar áður en þau fara heim til Svíþjóðar. Einnig munu Ágúst og Sandra vera hjá okkur. Ekki væri nú verra ef ég gæti notað sama hross í "tamningarnar" þannig að ef einhver lumar á svona hrossi sem mætti vera í sumardvöl hjá mér gegn klappi og knúsi þá endilega hafið samband!
Við erum á leið austur í dag og verðum yfir helgina. Atli þarf að veiðistússast eitthvað fyrir veiðifélagið og ég ætla að sækja Vöku mína og koma henni á Kjóastaði. Lilja ætlar að taka hana með sér yfir Kjöl sem er bara besta mál, Vaka kemst þá í form áður en ég byrja sumarfríið mitt.