Mánaskál

05.01.2009 21:30

Kominn tími á blogg

Jæja núna er ég farin að slóra í blogginu...

Ég náði öllum prófunum! og þarf því ekki fara í nein endurtektarpróf í janúar. Ég verð nú bara að segja að ég er ansi stolt af mér fyrir að hafa náð að klára heila önn í fullu námi með fullri vinnu og kasólétt emoticon  Ég ætla bara að vera ansi ánægð lengi lengi hehe

Atli kom heim á þorláksmessu eins og til stóð og við áttum róleg og fín jól. Hann þurfti reyndar að fara út aftur á annan í jólum svo við fórum ekki austur í jólaboðið sem við ætluðum í. Í staðinn fór ég í mitt jólaboð í Flúðaselinu og fjölskyldan mín var bara mjög glöð með það emoticon  Alltaf gott að borða og blessað heita súkkulaðið hennar Önnu frænku.. mmmmmmm! Jólaboðið var með þessu hefbundna sniði, krónuleik og bingó.. þetta er sko bingósjúk fjölskylda!

Ég fór í sónar á aðfangadag þar sem krílið sat á bossanum í stað þess að vera komið í höfuðstöðu. Sónarinn staðfesti það sem við ljósan vissum og ég fékk tíma í vendingu á þriðja í jólum. Lólý systir fór með mér á spítalann þar sem Atli var í Miami að vinna. Merkilegt nokk þá gekk vendingin þrátt fyrir litlar líkur. Nú vona ég bara að ormurinn sé enn í höfuðstöðu og hafi ekki farið á eitthvað flakk í bumbunni.

Ég gerði mest lítið milli jóla og nýárs. Fékk einhverja flensudruslu með hálsbólgu og kvefi.. rosa gaman. Ég var voða mikið hjá mömmu í dekri og hún sá að mestu um að þvo barnafötin fyrir mig. Ég fór með allt til hennar þar sem við erum ekki enn búin að kaupa okkur þurrkara sem verður víst eiginlega nauðsynlegur þegar við verðum með lítinn orm á heimilinu.

Talandi um orminn þá er ég gengin 38 vikur svo þetta gæti farið að gerast hvenær sem er. Það er allavega víst að það eru hámark 4 vikur í erfingjann en vonandi eitthvað styttra en það samt. Ása frænka er ekki enn sprungin en verður sett af stað næsta mánudag ef prinsarnir verða ekki fæddir fyrir þann tíma. Petra frænka á Suðureyri er líka enn kasólétt og bara bíður eins og ég... ja eða við Atli.. ég veit ekki hvort okkar bíður meira emoticon

Atli kom svo heim á gamlársdag og við áttum fín áramót með tengdó og Tinnu og Garðari. Við spiluðum póker upp á Machintosh mola fram á nótt. Ég tapaði reyndar.. en það var samt ekki afþví að ég hefði étið alla molana mína!

Á nýársdag slepptum við matarboðinu hjá Siggu og Jóni og fórum norður í Mánaskál þar sem hrossin voru orðin heylaus. Það er alltaf jafn notalegt að vera í sveitinni og hrossin hafa gaman af okkur líka held ég. Sérstaklega erum við áhugaverð þegar við færum þeim rúllur emoticon  Atli dundaði í skemmunni sinni sem verður orðinn fínasti bílskúr áður en ég veit af. Hann er búinn að hengja upp fullt af ljósum og einhverjar pælingar eru í gangi með milliloft. Ég held að það séu allir sáttir á meðan hann finnur sér eitthvað til dundurs. Hann er líka duglegur á músaveiðunum en ég held að við þurfum að redda okkur einhverju almennilegu eitri til að klára þetta í eitt skipti fyrir öll.

Atli fór beint í vinnuna í gærkvöldi þegar við komum heim að norðan og kom svo heim í morgun. Ég er nú loksins hætt að vinna og gat því kúrt með honum í morgun í stað þess að þurfa að rjúka í vinnuna þegar hann er að koma heim emoticon Ég get þó ekki sofið jafn lengi og hann og læddist því um húsið eins og ég gat til að vekja hann ekki of snemma. Ég forðaði mér bara út á endanum þar sem þetta gat bara endað með því að þyrnirós vaknaði. Allt sem mig langaði að gera þýddi einhver óhljóð. Ég er búin að gera langann lista yfir það sem ég þarf/vil/ætla að gera en svo geri ég svo lítið í einu að ég verð að sjá til hvernig gengur með að klára listann. Ég er allavega næstum því búin að þvo allt sem viðkemur barninu. Það vantar aðallega að þvo og þrífa allt hitt!!

Ég náði að snattast svolítið í dag en maður líður fyrir það eftir á. Ég get eiginlega ekkert gengið.. nema að þetta tengist Smáralindinni beint frekar en röltinu emoticon Ég stunda þetta sem betur fer ekki alla daga svo þetta sleppur alveg. Reyndar ætlum við Ása í smá barnafataleiðangur á morgun en það verður bara gaman.

Ég á svo tíma í mæðraskoðun á morgun.. kannski þeirri síðustu úlala emoticon

Ég er svo að bíða eftir að skólinn byrji aftur en það eru nokkrir dagar í það enn. Ég þarf að vera extra dugleg og skipulögð til að eiga eitthvað inni þegar ég unga út erfingjanum. Ég geri ráð fyrir að það fari einhverjir dagar alfarið í það stúss svo skólinn mun sitja á hakanum á meðan. Þetta verður allt í lagi samt, sérstaklega þar sem þetta er svo snemma á önninni, ég fæ góðann tíma til að vinna upp efnið.

Annars er bara allt gott að frétta af okkur. Ég reyni að vera dugleg að blogga núna síðustu dagana svo fólk viti allavega hvort eitthvað er að gerast eða ekki. Ég skammast í öðrum fyrir að blogga ekki nóg og verð því að standa mig sjálf.

Þangað til næst..

Flettingar í dag: 151
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 489
Gestir í gær: 24
Samtals flettingar: 377704
Samtals gestir: 43315
Tölur uppfærðar: 4.4.2025 01:01:16

Eldra efni

Nafn:

Kolbrún Á. Guðnadóttir

Tenglar